22. sep. 2010

Stjórn sambandsins á vinnufundi um sveitarstjórnarlög

  • Vinnufundur
  • Stjornarfundur-002
  • Stjornarfundur-006
  • Stjornarfundur-007
  • Stjornarfundur-014

Stjórn sambandsins kom saman til fundar fyrr í dag þar sem fjallað var um drög að frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga og skýrslu um fjármálareglur fyrir sveitarfélög og samráð um efnhagsmál.

Vinna við gerð frumvarps til nýrra sveitarstjórnarlaga er í höndum sérstaks verkefnisstjóra og fimm manna starfshóps sem starfar með honum að verkefninu. Starfshópurinn er skipaður þremur fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og tveimur fulltrúm Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkefnisstjóri er Trausti Fannar Valsson, lektor í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands. Fulltrúar ráðherra í starfshópi eru Ísólfur Gylfi Pálmason, Drífa Hjartardóttir og Ólafur Gunnarsson og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga í hópnum eru Björk Vilhelmsdóttir og Guðjón Bragason.

Trausti Fannar Valsson verkefnistjóri fór yfir frumvarpsdrögin og skýrði þau nánar og svaraði fyrirspurnum sttjórnarmanna, ásamt starfsmönnum sambandsins.

Meginmarkmiðið með heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga er að lögin skapi fullnægjandi umgjörð og stuðning við kjörna fulltrúa og stjórnsýslu sveitarfélaga, tryggi íbúum tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum og tryggi ábyrga og rétta framkvæmd sveitarstjórnarmála.

Frumvarpsdrögin og skýrslan um fjármálareglur verða til umræðu og umfjöllunar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 29. september til 1. október nk.