25. jún. 2010

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga upplýsir sveitarstjórnarmenn um verkefni sín

  • mappa

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent öllum sveitarstjórnarmönnum bréf þar sem kynnt eru helstu verkefni nefndarinnar og samskipti við sveitarstjórnir. Alls fá rúmlega 500 sveitarstjórnarmenn bréfið og er tilgangur þess að greiða fyrir góðum samskiptum og að upplýsingar berist fljótt og vel á milli aðila.

Í upphafi bréfsins er upplýst um skipan nefndarinnar og starfsmenn en starf nefndarinnar er byggt á VII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og reglugerð nr. 374/2001. Síðan er gerð grein fyrir því meginhlutverki nefndarinnar sem er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og hafa eftirlit með því að fjárstjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaganna.

Þá er vakin athygli á lagabreytingu frá í vor þar opnað er fyrir þá leið að sveitarfélög skili ársfjórðungslega upplýsingum úr bókhaldi og reikningsskilum til ráðuneytisins, eftirlitsnefndarinnar, Hagstofunnar og Sambands íslenkra sveitarfélaga. Einnig er í bréfinu fjallað um viðmiðanir og lykiltölur úr rekstri og efnahagsreikningi og bent á það viðmið eftirlitsnefndarinnar að heildarskuldir sveitarfélaga og skuldbindingar þess þurfi að vera undir 150% af heildartekjum og að stefnt verði að enn lægra hlutfalli.

Í lok bréfsins segir að nefndin vonist eftir góðu samstarfi við sveitarfélögin og að tilskildar upplýsingar berist fljótt og vel á milli aðila. Undir bréfið skrifa nefndarmennirnir, Ólafur Nilsson formaður, Hafdís Karlsdóttir og Þórður Skúlason.

Nánar á vefsíðu Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.