17. maí 2010

1680 evrópsk sveitarfélög skuldbinda sig til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda

Sáttmáli ESB um sjálfbæra orku (Covenant of Mayors)

logo-Covenant-of-Mayors

Sáttmáli sveitarfélaga um sjálfbæra orku(Covenant of Mayors) varð til að frumkvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, héraðanefndarinnar og Evrópuþingsins árið 2008. Markmið sáttmálans er að færa evrópskar borgir á sjálfbæra braut með aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvænni neyslu. Sáttmálinn kallar á breyttar áherslur í stefnumótun og skipulagningu þéttbýlis og aukna og virkari þátttöku almennings.

Með aðild að sáttmálanum skuldbinda borgir og bæir sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en 20% til ársins 2020, sem er umfram það sem orkustefna ESB kveður á um. Ætlunin er að markmiðið náist með bættri orkunýtingu og hreinni framleiðslu og notkun. Sáttmálinn felur í sér greiningu, aðgerðaáætlun um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda og eftirlit með framkvæmdinni. Aðilar skuldbinda sig einnig til að stuðla að vitundarvakningu meðal borgara og til að deila ,,best practice“, ásamt því að tryggja nægt fjármagn til verkefnisins og að virkja borgarana til að taka þátt í framkvæmd aðgerðaáætlunar á grundvelli sáttmálans, þ. á. m. með skipulagningu orkudaga og samstarfi við önnur sveitarfélög.  Í sáttmálanum felast þó ekki aðeins takmarkandi skuldbindingar; fjárfesting í aðgerðum sem draga úr orkunotkun og þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda getur skilað efnahagslegum ávinningi og hagræðingu, auk þess sem hún skapar störf sem eru í eðli sínu staðbundin og styður þannig við atvinnuuppbyggingu þar sem fjárfest er.

500 nýjar borgir og bæir bætast í hóp þeirra sem skuldbinda sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda

cov-mayors-2Í síðustu viku, á árlegri ráðstefnu sem haldin er á grundvelli sáttmála sveitarfélaga um sjálfbæra orku, gerðust rúmlega 500 nýjar borgir aðilar. Alls hafa því 1680 borgir og bæir í 36 löndum skrifað undir sáttmálann - fyrir hönd 120 milljóna Evrópubúa.

Ráðstefnuna sóttu um 1500 sveitarstjórnarmenn frá 36 löndum ásamt forseta Evrópuþingsins, forseta framkvæmdastjórnar ESB,  forsætisráðherra Spánar og fleira áhrifafólki. Ýmis áhugaverð verkefni voru kynnt, t.d. hefur borgin Heidelberg í Þýskalandi minnkað losun í opinberum byggingum um 40% með virku eftirliti og Orkuhópum í grunnskólum. Ríga í Lettlandi nýtir metangas úr ruslahaugum til að framleiða rafmagn og í Antwerpen, Belgíu hefur gamalli verksmiðju verið breytt í sjálfbæra byggingu þar sem borgarar geta kynnt sér umhverfismál. Þá kom fram að sjóðir ESB styrkja fjölda verkefna sem falla undir sáttmálann, þ. á m. ELENA-sjóðurinn en 15 milljónum evra verður veitt úr honum til orkumála á þessu ári.

Mynd og hljóðupptaka af ráðstefnunni hefur verið birt á heimasíðu sáttmálans.

Stuðningur orkufyrirtækja, landshlutasamtaka, samtaka sveitarfélaga og héraða

Auk borga og bæja geta samtök sveitarfélaga, héruð, landshlutasamtök, orkufyrirtæki, o.fl. átt aðild að sáttamálanum sem stuðningsaðilar (Supporting Structures). Opinberum stuðningsaðilum er ætlað að aðstoða sveitarfélög sem hafa pólitískan vilja til að undirrita sáttmálann en skortir fjármagn og starfsfólk til að gera og framkvæma aðgerðaáætlanir um sjálfbæra orku. Orkufyrirtæki og aðrir aðilar sem áhuga hafa á að koma sáttmálanum í framkvæmd geta einnig gerst stuðningsaðilar.