07. apr. 2010

Umsögn um skipulagslög

skipulag_minniSamband íslenskra sveitarfélaga hefur sent umhverfisnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til skipulagslaga. Í því frumvarpi sem nú er lagt fram hefur verið tekið mun meira tillit en áður til sjónarmiða sveitarfélaga. Þar munar mestu um að ákvæði III. kafla frumvarpsins, sem fjallar um landsskipulagsstefnu, hafa tekið grundvallarbreytingum. Af þeirri ástæðu styður sambandið að frumvarpið verði að lögum en leggur þó áherslu á að á því verði gerðar ákveðnar breytingar, sem einkum varða meðferð skipulagstillagna og gjaldtöku fyrir skipulagsvinnu. Einnig leggur sambandið áherslu á að við afgreiðslu frumvarps til laga um mannvirki verði gerð sú breyting að sveitarfélögum verði tryggð aðkoma við afgreiðslu Byggingarstofnunar á umsóknum um byggingarleyfi á strandsvæðum.

Sambandið vekur einnig athygli á því að í umsögn Reykjavíkurborgar og fleiri sveitarfélaga um frumvarpið koma fram hugmyndir um að taka á ýmsum vandamálum sem tengjast skipulagi í eldri hverfum og einfalda deiliskipulagsferlið frekar en gert er í frumvarpinu. Sambandið tekur undir þessar athugasemdir og telur einnig afar mikilvægt að athugasemdir borgarinnar um hina hlutlægu skaðabótareglu í 51. gr. frv. og 33. gr. gildandi laga, fái ítarlega umfjöllun í umhverfisnefnd, en í umsögn Reykjavíkurborgar er bent á að sú regla eigi sér ekki hliðstæðu á hinum Norðurlöndunum. Sama máli gegnir um athugasemdir um málsmeðferð við gerð svæðisskipulags og vandamál sem tengjast sameiginlegri stefnumótun sveitarfélaga um byggðaþróun.

Í umsögninni er umhverfisnefnd Alþingis meðal annars hvött til þess að skoða leiðir til styttingar skipulagstímans, m.a. með því að fela Skipulagsstofnun að staðfesta aðal- og svæðisskipulagstillögur og leggja af skyldu Skipulagsstofnunar til þess að yfirfara deiliskipulagstillögur.

Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um skipulagslög.