30. mar. 2010

80 milljónum króna úthlutað í styrki til að efla nærþjónustu við börn

haldast-i-hendur_72Verkefnisstjórn hefur ákveðið úthlutun styrkja til verkefna sem ætlað er að efla þjónustu í heimabyggð við langveik börn og börn með athyglisbrest og ofvirkni. Úthlutað verður 80 milljónum króna til fjölbreyttra verkefna um allt land.

Alls bárust 80 umsóknir frá 30 aðilum, þ.e. sveitarfélögum, samtökum sveitarfélaga og skólaskrifstofum og var sótt um rúmlega 287 milljónir króna. Að mati verkefnisstjórnar bera umsóknirnar þess glöggt vitni að víða sé unnið að þróun margvíslegrar þjónustu við þá hópa barna sem hér um ræðir. Við mat á umsóknum lagði verkefnisstjórnin áherslu á að úthlutun nýtist börnum og fjölskyldum þeirra sem best og að jafnframt sé stuðlað að samvinnu þeirra aðila sem að málaflokknum koma.

Mikill meiri hluti umsókna var til verkefna sem varða þjónustu við börn með ofvirkni og athyglisbrest en umsóknir um verkefni sem mæta þörfum langveikra barna voru tiltölulega fáar. Öll verkefni sem tengjast langveikum börnum hljóta styrk. Verkefni vegna barna með ofvirkni og athyglisbrest fá hins vegar ekki öll úthlutun og yfirleitt aðeins hluta af þeirri fjáhæð sem sótt var um. 

Styrkirnir eru veittir á grundvelli samstarfssamnings félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarmála­ráðu­­neytis, heilbrigðisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um átak til að efla stuðnings- og nærþjónustu í heimabyggð fyrir langveik börn og börn með athyglisbrest. Auglýst var eftir umsóknum í desember síðastliðnum.

Áætlað er síðar á þessu ári verði auglýstir styrkir til sambærilegra verkefna af fjárlögum ársins 2010.

Yfirlit um styrki