15. jún. 2015

Ellefti fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA haldinn í Stange, Noregi

Erlent vinnuafl og fólksflutningar á EES svæðinu, fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna og staða EES-samningsins á dagskrá

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í ellefta sinn í Stange, Noregi 11.-12. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti tólf kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi, sex frá hvoru landi, og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.

Helstu viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni voru frjáls för vinnuafls og fólksflutningar á EES svæðinu sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var fjallað um áhrif  fríverslunarsamnings ESB og Bandaríkjanna, sem er í undirbúningi, og mat ESB á stöðu EES-samningsins.

Erlent vinnuafl og fólksflutningar á EES svæðinu.

Atvinnusókn á milli landa á EES-svæðinu hefur aukist mikið á síðustu árum, einkum í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins til austurs árið 2004. Erlent vinnuafl skipti miklu fyrir efnahagslegan uppgang á Íslandi á árunum 2004-2008 en eftir hrun varð samdráttur í atvinnugreinum sem byggðu mikið á erlendu vinnuafli, svo sem í byggingaiðnaði, framleiðslu og þjónustu. Þó sumir hafi snúið aftur til upprunalands síns kusu margir að vera um kyrrt á Íslandi, enda gætti áhrifa efnahagskreppunnar víða og því ekki um auðugan garð að gresja í upprunalöndum heldur. Það er áhyggjuefni að atvinnuleysi er umtalsvert meira meðal erlendra ríkisborgara en innfæddra en á fundinum voru ýmsar áskoranir fyrir sveitarfélög á þessu sviði ræddar, m.a. með tilliti til félagslegra undirboða, félagsþjónustu, aðlögun innflytjenda og tungumálakunnáttu.

Á fundinum flutti Line Eldring, sérfræðingur hjá rannsóknarstofnuninni Fafo, erindi um fólksflutninga innan EES-svæðisins. Í kjölfarið samþykkti vettvangurinn ályktun um efnið sem flutt var af Nils A. Rohne, frá sveitarfélaginu Stange í Noregi. Í ályktuninni er vakin athygli á kostum fólksflutninga fyrir efnahagslíf Noregs og Íslands og að löndin hafi getað viðhaldið velferðar- og vinnumarkaðskerfum sínu með auknum hreyfanleika fólks á evrópskum vinnumarkaði. Vettvangurinn lýsir þó áhyggjum af hlutfallslega meira atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara en annarra, og langtímaáhrifum þessa á félags- og velferðarþjónustu sem sveitarfélög bera ábyrgð á. Kallað er eftir aðgerðum til að aðstoða útlendinga við að komast aftur á vinnumarkaðinn og koma í veg fyrir félagsleg undirboð og brot á reglum um vinnuvernd. Vettvangurinn leggur áherslu á mikilvægi tungumálaþekkingar og að hún sé lykill að fullri þátttöku á vinnumarkaði og í samfélaginu og hvetur ríkisvaldið til að tryggja að bæði börnum og fullorðum af erlendum uppruna standi til boða tungumálakennsla og þjálfun.  Með vísun til hins alvarlega flóttamannaástands, sem hefur m.a. haft í för með sér að yfir 1800 manns hafa drukknað á Miðjarðarhafi á þessu ári, er í ályktuninni kallað eftir samræmdum aðgerðum á Evrópuvísu til að bregðast við vanda flóttafólks, einkum frá Sýrlandi og Erítreu. Sveitarfélög hafi lykilhlutverki að gegna við móttöku flóttfólks og því sé brýnt að ríkisstjórnir hafi samráð við þau og veiti þeim stuðning til að mæta þörfum flóttafólks á viðunandi hátt. Ljóst er margir flóttamenn þurfa á sérhæfðum stuðningi að halda, til viðbótar við almenna félagsþjónustu, til að takast á við andleg og líkamleg áföll og til að læra að búa í nýju menningarumhverfi. Vettvangurinn vekur athygli á því að víða eiga innflytjendur og flóttamenn erfitt með að finna fullnægjandi húsnæði á viðráðanlegu verði og hvetur til samstarfs ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka til að bregðast við þessum vanda.

Ályktuninni verður komið á framfæri við stjórnvöld EES-ríkjanna, stofnanir EFTA og Svæðanefndina.

Mat á stöðu EES-samningsins og tvíhliða samningum ESB og Sviss

Evrópusambandið gerir á tveggja ára fresti úttektir á stöðu EES-samningsins og stöðu tvíhliða samninga við Sviss. Ráð ESB birti í lok síðasta árs slíkt mat á EES samningnum. Niðurstaðan er að almennt virki EES samningurinn vel en að á síðari árum hafi komið upp vaxandi vandkvæði sökum þess að ekki eru lengur skýr skil á milli EES-tækrar löggjafar um innri markaðinn og annarra sviða ESB. Þetta leiði m.a. til seinkunar innleiðingar EES-löggjafar í EES EFTA-ríkjunum sem skekki innri markaðinn. Ráðið tiltekur atriði sem það telur miður fara, m.a. að samningaviðræður EEA EFTA ríkjanna um að taka tilteknar gerðir inn í samninginn taki of langan tíma og að tilkynningar um slíkar ákvarðanir berist seint. Einnig taki samningaviðræður um aðlögunarkrörfur og innlendir ferlar til að innleiða gerðir í landslög of langan tíma.

Samkvæmt ársskýrslu ESA hefur fleiri málum aldrei verið vísað til EFTA dómstólsins en á síðasta ári. Flest varða þau tæknilegar tilskipanir og reglugerðir sem hafa ekki verið innleiddar rétt eða innan tilskilins tíma og leysast án þess að til málarekstrar fyrir dómstólnum komi. Aðildarríki ESB hafa náð æ betri tökum á að innleiða nýjar sameiginlegar reglur í landsrétt sinn innan tímamarka. Á sama tíma sígur á ógæfuhliðina hjá EES EFTA-ríkjunum en Ísland er með langmesta innleiðingarhallann af öllum EES-ríkjunum. Hallinn í apríl var 2,8% sem samsvarar því að 31 tilskipun hafi ekki verið innleidd að fullu á réttum tíma. Til samanburðar er innleiðingarhallinn að meðaltali 0,5% í ríkjum ESB. Aðeins eitt ESB ríki var með innleiðingarhalla umfram 1% viðmiðið, þ.e. Slóvenía, með 1,4% innleiðingarhalla. ESB-ríki eru beitt sektarviðurlögum ef þau innleiða ekki löggjöf innan tímafresta. ESA hefur ekki heimildir til að beita slíkum viðurlögum gagnvart EES EFTA-ríkjunum. Þess ber að geta að um 500 EES-gerðir bíða þess að verða teknar inn í samninginn. Samningsbrotamál af því að tilskipanir og reglugerðir eru ekki innleiddar innan tímamarka voru í apríl 131, langflest gegn Íslandi eða 107. Vegna síaukinna tafa á innleiðingu vísaði ESA sautján málum til EFTA dómstólsins árið 2014. Þrettán þeirra voru höfðuð gegn Íslandi.

Ástæður innleiðingarhalla á Íslandi eru margþættar en nefna má að stjórnsýslan er fámenn, þingleg meðferð á tæknilegum gerðum er óþarflega ítarleg og skortur er á pólitískum áhuga á samningnum. Fyrrum stjórnarmaður ESA, Sverrir Haukur Gunnlaugson, hefur kallað eftir því að staða Íslands gagnvart framkvæmd samningsins verði bætt. Hann segir skort á pólitískum forgangi hjá ráðuneytum og þinginu. Nauðsynlegt sé veita auknum fjármunum til málaflokksins, fjölga starfsmönnum, bæta skipulag og síðast en ekki síst koma á agaðri vinnubrögðum. Alþjóðastofnun Háskóla Íslands og Sendinefnd ESB á Íslandi hafa í vor staðið fyrir fundaröð til að ræða stöðu og framtíð EES samningsins.

Sviss, sem er aðili að EFTA en ekki EES, á nú í erfiðum viðræðum um framtíðarfyrirkomulag samstarfs síns við ESB. Ráð ESB hefur kallað eftir breytingum á samstarfi sínu við Sviss en nú eru í gildi um 120 tvíhliða samningar milli Sviss og ESB um m.a. frjálsa för, loftferðir, vöruflutning, sölu landbúnaðarafurða, opinber innkaup o.fl. Sviss tekur einnig þátt í Schengen-samstarfinu og ýmsum samstarfsáætlunum s.s. Horizon2020 og Erasmus+. Samskipti ESB og Sviss flæktust enn eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra þar sem ákveðið var að setja hámark á þann fjölda innflytjenda, þar á meðal ESB-borgara, sem fær að koma til landsins. Þetta brýtur gegn samningi Sviss og ESB um frjálsa för fólks, fjármagns og varnings en ESB hefur lýst því yfir að samskipti við Sviss verði í járnum þar til frjáls för vinnuafls verði tryggð á ný.

Fríverslunarsamningur ESB og Bandaríkjanna og fjölþjóðlegur samningur um þjónustuviðskipti

Samningaviðræður um víðtækan fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) standa nú yfir. Slíkur samningur gæti m.a. haft umtalsverð áhrif á innkaupamál sveitarfélaga og rekstrarform þjónustu þeirra. Markmið samningsins er að auðvelda gagnkvæman aðgang fyrirtækja samningsríkjanna að mörkuðum þeirra og hann myndi fela í sér samræmingu á regluverki ríkjanna. Talið er að hann geti haft í för með sér aukinn þrýsting á einkavæðingu almannaþjónustu, s.s. úrgangsmála, almenningssamgangna og menningarmála.  Einnig er talið að hann gæti haft í för með sér breytingar á umhverfislöggjöf ESB, á reglum um neytendavernd og matvælaeftirlit. 

EES EFTA löndin verða ekki beinir aðilar að samningum en hann myndi óbeint hafa mikil áhrif á þau, vegna breytinga sem gera þyrfti á ESB löggjöf sem heyrir undir EES samninginn. Ennþá er langt í land með að samningur sé höfn en gagnrýnt hefur verið að samningsferlið sé ógagnsætt og að lýðræðislega kjörin stjórnvöld í aðilarríkjunum hafi ekki fengið nægjanlegar upplýsingar um stöðu samningaviðræðna, m.a. vegna þess að í Bandaríkjunum tíðkast meiri leynd í kringum svona samningaviðræður en í Evrópu.

Einnig standa yfir samningaviðræður um fjölþjóðlegan samning um þjónustuviðskipti (TiSA) sem Ísland tekur þátt í. Samningurinn mun byggja á GATS reglum og fjalla sérstaklega um sjóflutninga, orkumál, fjármagnsþjónustu, póstþjónustu, fjarskipti, aðgang þjónustuveitenda og rafræn viðskipti. Markmiðið er að fækka hindrunum sem standa í vegi fyrirtækjum sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta. Ísland hefur kynnt samningstilboðs sitt þar sem lögð er megináhersla á að ná sem bestum kjörum fyrir fyrirtæki á sviði hátækni- og orkumála og á sviði alþjóðlegra sjóflutninga.

Fundarmenn hlýddu á kynningar Celiu Helenu Thorheim, sérfræðings hjá norska iðnaðarráðuneytinu og Roberts Ronström, frá Svæðanefnd ESB um TTIP og TiSA og ræddu í kjölfarið efnið. Fram kom að ESB leggi nú áherslu á að almannaþjónusta verði undanþegin samningnum og nýi sænski framkvæmdastjórinn, Cecilia Malmström, sem stýrir málinu af hálfu ESB leggi áherslu á að auka gagnsæi í samningaferlinu.

Á fundinum sagði Marius Vahl, sérfræðingur hjá EFTA, einnig frá helstu málum á döfinni hjá stofnuninni sem snerta sveitarfélög.