03. júl. 2015

Styrkir til meistaranema

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var föstudaginn 3. júlí 2015, var samþykkt að veita árlega á árunum 2016-18 styrki til allt að þriggja meistaranema við viðurkennda háskóla. Samþykkt þessi er gerð í tilefni af 70 ára afmæli sambandsins, sem stofnað var í júní árið 1945.

Skilyrði fyrir styrkveitingunni er að verkefnin sem sótt er um styrk til hafi skírskotun til markmiða eða aðgerða í stefnumörkun sambandsins 2014-2018. Á hverju ári er gert ráð fyrir að sambandið tilgreini þá stefnumörkunarþætti, sem leggja ber áherslu á að fjallað verði um í þeim lokaverkefnum sem verða styrkt. Þannig getur sambandið forgangsraðað þeim málum, sem það kallar eftir umfjöllun um, í lokaverkefnum þeirra meistaranema sem fá samþykkta styrki.

Samþykktin verður kynnt í háskólum landsins næstkomandi haust. Með samþykktinni væntir stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að vitund meistaranema og áhugi þeirra á starfsemi sveitarfélaga, sambandsins og sveitarstjórnarstigsins muni aukast og tengsl sambandsins og háskólasamfélagsins munu að líkindum eflast. Auglýst verður eftir umsóknum um styrkina um næstu áramót

Á stjórnarfundinum voru samþykktar verklagsreglur vegna úthlutunar styrkja til meistaranema. Verklagsreglurnar má nálgast á vef sambandsins.