08. júl. 2014

9. fundur EFTA sveitarstjórnarvettvangsins

Grímsnes- og Grafningshreppi 26.-27. júní 2014

Níundi fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA, sem tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES samstarfinu, fór fram í Grímsnes- og Grafningshreppi 26.-27. júní sl.  Í vettvangnum eiga sæti tólf kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Vettvangurinn hefur sent frá sér 15 ályktanir um mikilvæg hagsmunamál sveitarfélaga á Íslandi og í Noregi sem hefur verið komið á framfæri við stofnanir EFTA og ESB og viðkomandi ráðuneyti í Noregi og Íslandi. Á þessum fundi bættust við tvær ályktanir um stefnumótun ESB vegna loftslagsbreytinga og orkumála og vegna norðurslóða.  Einnig var fjallað um tækifæri sveitarfélaga í evrópskum samstarfsáætlunum á nýju styrkjatímabili 2014-2020.  Þessar og eldri ályktanir, ásamt bakgrunnsskjölum og kynningum, eru allar aðgengilegar á heimasíðu sveitarstjórnarvettvangsins.

Samband íslenskra sveitarfélaga og  Reykjavíkurborg eiga fasta fulltrúa í vettvanginum en landshlutasamtök sveitarfélaga skipta með sér fjórum fulltrúum. Það skýrir að nokkru fundarstaðinn að Gunnar Þorgeirsson formaður SASS hefur  tekið þátt í störfum vettvangsins undanfarin tvö ár, ásamt formönnum SSS, Eyþings og SSA. Á næsta fundi, sem mun verða haldinn í nóvember nk.,  munu formenn SSH, SSV, FV og SSNV taka við keflinu.

Sjá nánar á vefsíðu sveitarstjórnarvettvangsins.