27. jan. 2014

Dalvíkurbyggð, Reykjanesbær, Garður og Sandgerði hlutu nýsköpunarverðlaun

  • 2014-01-24-758

Föstudaginn 24. janúar voru verðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Fjögur sveitarfélög hlutu viðurkenningar; Dalvíkurbyggð hlaut  viðurkenningu fyrir verkefnið Söguskjóður og sveitarfélögin Reykjanesbær, Garður og Sandgerði hlutu viðurkenningu fyrir framtíðarsýn í menntamálum.

Söguskjóður í Dalvíkurbyggð

Verkefnið Söguskjóður hefur m.a. það að markmiði að auka tengsl foreldra við leikskóla/grunnskóla. Foreldrar eru fengnir til að koma inn í skólana og útbúa stórar söguskjóður í tengslum við barnabækur, þar sem ýmsum hlutum tengdum efni bókanna er safnað saman.  Foreldrar unnu í hópum að gerð skjóðanna með stuðningi starfsfólks skólanna.  

Verkefnið þykir hafa heppnast mjög vel. Þannig kynnast foreldrar leikskólanum og hvoru öðru betur og þeir sem eru að læra íslensku fá tækifæri til að spreyta sig á nýju tungumáli og nálgast íslensk orð á fjölbreyttan máta.  Kennararnir og foreldrar kynnast á annan hátt og aukið traust skapast þar á milli. Þá eru söguskjóðurnar lánaðar til skoðunar og umfjöllunar á vettvangi heimilisins og stuðla þannig að uppbyggilegum tengslum foreldra og barna.  

Framtíðarsýn í menntamálum

Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis tekur m.a. mið af sáttmála sem allir skólastjórnendur leik- og grunnskóla á svæðinu skrifuðu undir. Hann felur í sér viljayfirlýsingu um að stuðla að bættum námsárangri barna á Reykjanesi og samþættingu læsis og stærðfræði í leikskólastarfi.

Hlutverk framtíðarsýnar í menntamálum er tvennskonar. Annars vegar felur hún í sér stuðning og aðhald í daglegu skólastarfi. Hver skóli heldur sínum sérkennum og mótar eigin aðferðir til þess að mæta markmiðum framtíðarsýnarinnar. Hins vegar felur hún í sér verklag sem hefur bein áhrif á daglegt skólastarf. Verklag framtíðarsýnar einkennist af; 1) áherslu á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum, 2) notkun skimunarprófa í lestri og stærðfræði, 3) frammistöðumati, 4) góðri samvinnu heimilis og skóla og 5) rannsóknum og gagnvirku sambandi við háskólasamfélagið.

Upptökur frá afhendingu viðurkenninganna verða birtar hér á vef sambandsins síðar í þessari viku.

2014-01-24-758

Á myndinni má sjá fulltrúa Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Nyskopunarverdlaun
Á myndinni eru allir verðlaunahafar dagsins ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.