03. maí 2013

Kynning á frumvarpi til laga um tónlistarskóla

  • Trompetleikari_litil

Eitt af stjórnarfrumvörpum mennta- og menningarmálaráðherra á þingmálaskrá ríkisstjórnar fyrir 141. löggjafarþing var frumvarp til laga um tónlistarskóla. Frumvarpið er byggt á tillögu nefndar um endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, sem kynnt var í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 25. janúar til 6. febrúar 2013, þar sem almenningi var gefinn kostur á að senda inn athugasemdir eða ábendingar um efni frumvarpstillögunnar. Ábendingar bárust frá Félagi tónlistarskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum tónlistarskólastjóra, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, Tónskóla Hörpunnar. Athugasemdir vörðuðu einkum þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að ábyrgð sveitarfélaga á rekstri tónlistarskóla og ákvörðun framlags úr ríkissjóði til stuðnings tónlistarkennslu. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið leitast við að taka tillit til allra gagnlegra ábendinga sem fram komu. Mennta- og menningarmálaráðherra auðnaðist ekki að leggja frumvarpið fram á 141. löggjafarþingi en sú útgáfa frumvarpsins sem undirbúin hafði verið fyrir þinglega meðferð er hér með kynnt á vef ráðuneytisins.

Helsta markmið frumvarpsins er að sett verði ný heildarlög um starfsemi tónlistarskóla sem starfa samkvæmt frumvarpinu og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Rekstur tónlistarskóla hefur fram til þessa verið valkvætt verkefni sveitarfélaga og felur tillaga nefndarinnar ekki í sér breytingu á því fyrirkomulagi. Í frumvarpinu er kveðið á um starfsemi tónlistarskóla með mun skýrari hætti en í gildandi lögum. Þá er sérstaklega mælt fyrir um að sjálfstætt starfandi tónlistarskólar eigi rétt á viðurkenningu ráðuneytis og gert ráð fyrir tilteknum lágmarkskröfum um efni þjónustusamnings milli slíkra skóla og sveitarfélaganna. Í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóður veiti árlegt framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna skal til kennslukostnaðar að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna mið- og framhaldsnáms í söng og framhaldsnáms í hljóðfæraleik.


Frétt um sama mál á vef sambandsins, frá 25. janúar 2013.