30. nóv. 2012

Frá Brussel til Breiðdalshrepps, upplýsingarit Brussel-skrifstofu er komið út

  • mynd-brussel-til-breiddalshr
Stefnumótun og löggjöf Evrópusambandsins hefur víðtæk áhrif á íslensk sveitarfélög í gegnum EES-samninginn. Áhrifin ná til flestra málaflokka sveitarfélaga, þó í mismiklum mæli sé. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur, með stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, starfrækt skrifstofu í Brussel síðan 2006. Skrifstofan annast hagsmunagæslu fyrir íslensk sveitarfélög í Brussel og miðlar upplýsingum um Evrópumál til sveitarfélaga og sambandsins.
 

Frá Brussel til Breiðdalshrepps, upplýsingarit skrifstofunnar um helstu nýmæli hjá ESB og EFTA sem snerta sveitarfélög er nú komið út. Upplýsingunum hefur verið skipt niður eftir efnisköflum þannig að það sé aðgengilegt fyrir stjórnendur á einstökum sviðum sveitarfélaga að nálgast upplýsingar um sín svið, s.s. um  félags- og starfsmannamál, opinber innkaup, umhverfis-, loftslags-, og orkumál og  stefnumótun, stofnanauppbyggingu  og byggðastefnu ESB. Þá er einnig að finna í ritunu skýringar á hlutverkum Evrópustofnana, skammstöfunum og sértækum heitum sem notuð eru yfir Evrópumál. Í  ritinu er einnig að finna fjölda tengla á skjöl og heimasíður þar sem nálgast má nánari upplýsingar um einstök mál.  Vakin er athygli á því að með því að smella á einstök kaflaheiti í skjalinu flyst lesandinn beint á viðkomandi kafla. 

Upplýsingaritið kemur út tvisvar á ári en áhugasömum um Evrópumál einnig bent á fréttasíðu Brussel-skrifstofunnar og  að skrá sig á póstlista sambandsins um efnið til að fá sendar beint fréttir af nýmælum.