15. maí 2012

Starf bókara og launafulltrúa

  • Rett_Blatt_Stort_a_vefinn

Samband íslenskra sveitarfélaga auglýsir laust til umsóknar starf bókara og launafulltrúa á rekstrar- og útgáfusviði sambandsins.

Bókari og launafulltrúi sér um alla bókhalds- og launavinnslu hjá sambandinu og samstarfsstofnunum þess, skv. nánari starfslýsingu, aðstoðar við áætlanagerð og reikningsskil og sinnir ýmsum öðrum tilfallandi verkefnum þegar þörf er á.

Starfið er hluti af stoðþjónustu sambandsins og miðar það fyrst og fremst að því að sinna þjónustu við stjórnendur sambandsins og samstarfsstofnana þess á sviði bókhalds og launaútreiknings, auk tilfallandi starfa við þjónustu og aðstoð við aðra starfsmenn sambandsins og samstarfsstofnana þess.

Krafist er framhaldsskólamenntunar og viðbótarmenntun er tengist verkefnasviði starfsins er æskileg. Reynsla af bókhalds- og uppgjörsvinnu og launaútreikningum er nauðsynleg og þekking á Navision er kostur. Góð almenn tölvukunnátta og þekking og færni í notkun á excel er æskileg.

Leitað er að einstaklingi, karli eða konu, sem hefur til að bera frumkvæði og sjálfstæði í störfum, hæfni í mannlegum samskiptum og þjónustulipurð, nákvæmni í vinnubrögðum og hæfni til að vinna sjálfstætt og með öðrum að fjölbreyttum verkefnum. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Nánari upplýsingar veitir Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs, netfang: magnus.karel.hannesson@samband.is, í síma 515-4900.

Umsækjendum er bent á að frekari upplýsingar um Samband íslenskra sveitarfélaga eru á heimasíðunni, www.samband.is. Þar er einnig að finna starfsmannastefnu sambandsins og starfslýsingu fyrir starfið.

Umsóknir, merktar Umsókn um starf bókara og launafulltrúa, berist eigi síðar en föstudaginn 25. maí 2012 til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík.

Samband íslenskra sveitarfélaga er framsækinn vinnustaður sem býður upp á opið vinnuumhverfi, samheldinn starfsmannahóp og skapar starfsmönnum gott svigrúm til starfsþróunar.