29. feb. 2012

Nýjar viðmiðunarreglur vegna dvalar barna á leikskólum utan lögheimilissveitarfélags

  • Leikskolaborn_litil

Stjórn sambandsins samþykkti á fundi sínum 24. febrúar sl. nýjar viðmiðunarreglur vegna dvalar barna á leikskólum utan lögheimilissveitarfélags. Um er að ræða reglur sem  gilda eiga út árið 2012.

Starfshópur sá sem vann reglurnar mun framhalda vinnu sinnu við frekari greiningar á eftirtöldum þáttum og ljúka henni fyrir árslok 2012:

  1. aldurstengdur kostnaður vegna dvalar barna á leikskólum
  2. kostnaður við sérfræðiþjónustu og greiningu á öðrum sértækum kostnaði er tengist dvöl barna á leikskólum.

Sérstök athygli er vakin á þeirri breytingu að nú er gjaldskrá viðmiðunarreglna miðuð við meðaltalsraunkostnað sveitarfélaga við leikskóladvöl barna. Í 5. gr. kemur fram að í viðmiðunargjaldi sé innifalinn allur almennur leikskólakostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna húsnæðis og sérfræðiþjónustu.

Gjaldskráin sýnir brúttótölur og frá þeim dragast leikskólagjöld sem sveitarfélög innheimta af foreldrum.

Það skal undirstrikað að um viðmiðunarreglur að ræða og sveitarfélögum í sjálfsvald sett hvort þau nýti sér hana í samskiptum sín á milli vegna barna sem þiggja leikskólaþjónustu utan lögheimilissveitarfélags náist um það samkomulag.