14. sep. 2011

Lok tveggja ára samstarfsverkefnis

 • krakkar-i-skola

Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Jöfnunar­­­sjóður sveitarfélaga gerðu haustið 2009 með sér samstarfs­samning um ráðningu verkefnisstjóra til tveggja ára til að vinna að innleiðingu nýrra laga um leik- og grunnskóla. Björk Ólafsdóttir, matsfræðingur, var ráðin verkefnisstjóri. Verkefninu er nú formlega lokið og eru hér á eftir tekin saman þau verkefni sem unnið hefur verið að.

Megináhersla í starfi verkefnisstjóra var að:

Kortleggja samfélagslegar rannsóknir þar sem gagna er aflað í leik- og grunn­skólum í þeim tilgangi að gefa yfirlit yfir upplýsingaöflun í leik- og grunn­skólum til að stuðla að aukinni hagnýtingu á þeim.

 • Unnin voru yfirlit yfir rannsóknir og kannanir í leik og grunnskólum. Um er að ræða fjögur exel skjöl sem eru aðgengileg hér á síðunni.

Skýra eftirlits- og matshlutverk sveitarfélaga gagnvart ráðuneytinu samkvæmt nýjum lögum um leik- og grunnskóla. Markmiðið var að auðvelda sveitar­félögum að  uppfylla þessi  ákvæði laganna, til dæmis með gerð leiðbein­inga fyrir skólanefndir.

 • Settur var á stofn faghópur með fulltrúum ráðuneytis og sveitarfélaga. Faghópurinn lagði fram tillögur að sameiginlegu ytra mati ráðuneytis og sveitar­félaga á grunnskólastarfi. Tillögur faghóps eru hér á síðunni.
 • Unnið var yfirlit yfir skyldur og ábyrgð sveitarfélaga og skólanefnda samkvæmt lögum um leikskóla.  Yfirlitið má finna hér á síðunni.
 • Unnið var yfirlit yfir skyldur og ábyrgð sveitarfélaga og skólanefnda samkvæmt lögum um grunnskóla. Yfirlitið má finna hér á síðunni.
 • Unnar voru leiðbeiningar og viðmið fyrir sveitarfélög í tengslum við innra mat leikskóla. Leiðbeiningarnar má finna hér á síðunni.
 • Unnar voru leiðbeiningar og viðmið fyrir sveitarfélög í tengslum við innra mat grunnskóla. Leiðbeiningarnar má finna hér á síðunni.

Veita sveitarfélögum almenna ráðgjöf um val, greiningu og samhæfingu á mæli­tækjum og aðferðum til þess að auðvelda þeim að uppfylla skyldur sínar um eftirlit með skólastarfi og mat á gæðum þess.

 • Tekið var saman yfirlit yfir matstæki fyrir leikskóla
 • Tekið var saman yfirlit yfir matstæki fyrir grunnskóla.
 • Vorið 2011 voru haldin námskeið fyrir skólanefndir víðs vegar um landið þar sem verkefnisstjóri fjallaði um ábyrgð og hlutverk skólanefnda samkvæmt lögum um leik- og grunnskóla.
 • Verkefnisstjóri tók þátt í þróun Skólavogar, sem er tilraunaverkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga um mat á skólastarfi og samantekt tölulegra upplýsinga um skólastarf.
 • Ásamt Svandísi Ingimundardóttur skrifaði verkefnisstjóri grein í Sveitar­stjórnar­mál þar sem fjallað var um hvernig sveitarfélög geta nýtt sér niðurstöður PISA rannsóknarinnar.

Veita sveitarfélögum almenna ráðgjöf varðandi stefnumótun í skólamálum og hanna leiðbeiningar sem gætu auðveldað sveitarfélögum þá vinnu.  

Fylgja eftir sameiginlegri framtíðarsýn fyrir grunnskólastarf til 2020 og gera áherslur framtíðarsýnar aðgengilegar sem viðmið við gerð skólastefnu sveitarfélaga.

 • Í handbók um gerð skólastefnu er fjallað um framtíðarsýnina og hagnýtingu hennar við skólastefnugerð sveitarfélaga.
 • Úr fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöðum voru teknar saman upplýsingar í tengslum við skilgreinda mælikvarða í framtíðarsýninni til að hafa grunn­línu til að meta framfarir út frá. Samantekt grunnlínugagna er aðgengileg hér á síðunni
 • Verkefnisstjóri var fulltrúi sambandsins í faghóp um heilsueflandi grunn­skóla, sem er verkefni á vegum Lýðheilsustöðvar/­Landlæknis­embættisins.