12. sep. 2011

OPEN DAYS; Evrópuvika svæða og borga 10.-13. október - Skráning hafin

  • logo_od2011

Einn helsti viðburður sveitarstjórnarmanna í Evrópu, OPEN DAYS, fer fram í Brussel dagana 10.-13. október nk.  Það eru Héraðanefnd (Committee of the Regions) og byggðadeild (DG Regio) Evrópusambandsins sem standa fyrir viðburðinum en hann er nú haldinn í níunda sinn. Á annað hundrað uppákomur; málþing, vinnustofur, sýningar og viðburðir, fara fram í samvinnu héraða, borga og sveitarfélaga,  atvinnulífsins, alþjóðastofnana og háskólasamfélagsins. Íslensk sveitarfélög hafa tekið þátt í viðburðinum undanfarin ár en að þessu sinni kynnir Þróunarfélag Austurlands verkefni um samgöngur í dreifbýli sem styrkt er af  Norðurslóðaáætlun ESB (NPP).

OPEN DAYS skiptist í tvo hluta, annars vegar málstofur, þar sem fjallað er um ýmislegt er lýtur að sóknarfærum í héruðum og sveitarfélögum og hins vegar nokkurs konar vörusýningu þar sem fjölmörg svæði kynna sig með það í huga að leita eftir samstarfsaðilum og fjárfestum.

Yfirskrift OPEN DAYS 2011 er „Fjárfestum framtíð Evrópu: hugvitsamlegur, sjálfbær hagvöxtur fyrir allan fyrir tilstuðlan héraða og borga" en fjallað verður um fyrirmyndarverkefni og reynslu sveitarstjórnarmanna alls staðar að úr Evrópu.

Í byggingu Héraðanefndarinnar verður að finna eins konar markaðstorg: The Meeting Place, þar sem fyrirtæki, svæði, borgir og fjármálastofnanir munu m.a. kynna fyrirmyndarverkefni á sviði svæðasamvinnu, samvinnu einka- og opinberra aðila og svæðasamstarf yfir landamæri. Þá mun OPEN DAYS Háskólinn í samstarfi við alþjóðastofnanir og samtök, setja fram sjónarmið og rannsóknir háskólasamfélagsins varðandi byggðaþróunarmál í Evrópu og stefnu ESB.

Í september, október og nóvember verða svo haldnir á fjórða hundrað viðburðir um alla Evrópu undir yfirskrift OPEN DAYS. Innlendar stofnanir og samtök, s.s. héruð, sveitarfélög, umsjónaraðilar uppbyggingarsjóða, atvinnuþróunarfélög, samtök atvinnulífs, háskólar eru hvött til að taka þátt og til að leggja skipuleggjendum OPEN DAYS til hugmyndir að viðburðum.

Skráning á málstofur er hafin og eru þeir sem hafa áhuga á að sækja OPEN DAYS hvattir til að skrá sig sem fyrst þar sem reynsla undanfarinna ára sýnir að viðburðir fyllast fljótt. 

Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður Brusselskrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga, veitir einnig nánari upplýsingar.