29. ágú. 2011

Umsögn um frumvarpsdrög um dýravelferð

  • mappa

Nefnd á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis hefur kynnt drög frumvarps til laga um dýravelferð. Drögin eru liður í heildarendurskoðun sem tekur einkum til gildandi dýraverndarlaga en kemur jafnframt inn á lög um búfjárhald og -eftirlit, reglur um lausagöngu o.fl.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur látið í té umsögn um frumvarpsdrögin að höfðu samráði við Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða. Nálgast má umsögnina neðst í þessari frétt.

Umsögnin byggir á eftirfarandi áhersluatriðum sambandsins:

  • Að lögbundin ábyrgð á inngripum verði sem mest á einni hendi og þannig tryggt að boðleiðir og valdmörk milli stjórnsýslustiga valdi ekki töfum á rannsókn og annarri meðferð mála.
  • Að settur verði lágur þröskuldur gagnvart því að skilyrði teljist brostin fyrir leyfum sem veitt eru til þess að halda búfé eða önnur dýr.
  • Að refsiramminn vegna brota á lögum og reglugerðum um dýrahald verði hertur og refsinæmi brota aukið, m.a. þannig að stórfellt eða ítrekað brot varði fangelsi.
  • Að um búfjárhald í atvinnuskyni gildi að atvinnugreinin sjái sjálf um reglubundið búfjáreftirlit, upplýsingasöfnun og annað það sem venjubundið er að samtök framleiðenda sjái um. 

Sambandið telur eðlilegast að Matvælastofnun fari með lögbundnar valdheimildir í málaflokknum, í samráði við hlutaðeigandi héraðsdýralækni. Búfjáreftirlitsmenn verði að meginstefnu til starfsmenn búnaðarsambanda, en með samningum þeirra við Matvælastofnun og héraðsdýralækna mætti tryggja að staðbundnar viðbragðsáætlanir séu fyrir hendi og skilvirk stjórnsýsla í þeim tilvikum þegar úrbóta er þörf. 

Verði hins vegar kveðið á um að sveitarfélög beri lögbundna ábyrgð á inngripum hvað varðar búfjárhald verði jafnframt skýrlega kveðið á um heimild viðkomandi sveitarstjórnar til þess að innheimta hjá eiganda allan kostnað sem hlýst af inngripi og að krafa sveitarstjórnar njóti þá lögveðs og annars réttarhagræðis.  

Þá fer sambandið fram á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynni fyrir sveitarstjórnar­stiginu hvaða tillögur eru í farvatninu um framtíðarfyrirkomulag búfjáreftirlits.

 

  • Frumvarpsdrögin ásamt skýringum (drögin hafa fallið út af vef atvinnuvegaráðuneytisins).
  • Umsögn sambandins.