23. ágú. 2011

Unnið að reglugerð um framkvæmdaleyfi

  • skipulag_minni

Kynnt hafa verið drög að reglugerð um framkvæmdaleyfi. Drögin eru samin af starfshópi sem í sátu m.a. tveir fulltrúar sveitarfélaga og var þannig tryggt að meginsjónarmiðum þeirra væri haldið til haga í vinnunni. Af hálfu sambandsins hefur verið litið á það sem framfaraskref að sett verði sérstök reglugerð um framkvæmdaleyfi, en til þessa hefur lagaumgjörðin verið mjög óskýr um veitingu framkvæmdaleyfa, m.a. um það hvaða framkvæmdir eru leyfisskyldar. Hefur því verulega skort á formfestu og framkvæmd verið of tilviljanakennd af hálfu sveitarfélaga og framkvæmdaraðila.

Í umsögn sinni um drögin benti sambandið á nokkur atriði sem umhverfisráðuneytið þarf að taka afstöðu til og geta jafnvel kallað á breytingar á skipulagslögum. Meðal annars er á það bent að fyrir Alþingi liggur frumvarp til nýrra vatnalaga sem er í verulegu ósamræmi við skipulagslög hvað varðar leyfisveitingar vegna framkvæmda í ám og vötnum. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að taka afstöðu til þess við setningu reglugerðar um framkvæmdaleyfi hvort gildissvið hennar nái einnig til þeirra framkvæmda sem fjallað er um í frumvarpi til vatnalaga, t.d. breytinga á vatnsfarvegi. Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga er skýr um það að útgáfa framkvæmdaleyfa eigi að vera hjá sveitarfélögum og að Orkustofnun sé ætlað alltof vítt hlutverk í umræddu frumvarpi til vatnalaga. Verður að telja alveg skýrt að ákvæði skipulagslaga taka ekki aðeins til framkvæmda á landi heldur einnig í ám og vötnum.

Ein stærsta breytingin sem lögð er til í reglugerðardrögunum er að skilgreina eins og frekast er unnt hvaða framkvæmdir eru leyfisskyldar. Er m.a. lagt til að nýræktun skóga verði framkvæmdaleyfisskyld og er sú tillaga afar nauðsynleg að áliti sambandsins enda getur skógrækt haft mikil áhrif á umhverfið og breytt ásýnd þess. Slíkar skilgreiningar verða hins vegar aldrei tæmandi og því getur mat á leyfisskyldu einstakrar framkvæmdar að einhverju leyti verið huglægt. Það getur leitt til vafamála og leggur sambandið til þá breytingu á 3. mgr. 4. gr. draganna að það verði hlutverk Skipulagsstofnunar, frekar en úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál, að veita álit um leyfisskyldu framkvæmda. Nauðsynlegt er að slíkt álit geti legið fyrir innan tiltölulega skamms tíma en vegna mikils álags á úrskurðarnefndinni er þess tæplega að vænta að hún geti bætt þessu verkefni á sig. Mælist sambandið því til þess að umhverfisráðherra beiti sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum til að hægt verði að fela Skipulagsstofnun þetta verkefni.

Umsögn um drög að reglugerð um framkvæmdaleyfi.