28. mar. 2011

Mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn

  • SIS_Skolamal_760x640

Mennta- og menningarmálaráðherra mælti þann 23. mars sl. fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn. Tilefni frumvarpsins er álit frá umboðsmanni Alþingis frá því í desember 2010, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að reglur Landsbókasafns um innheimtu sekta vegna vanskila á bókum hefðu ekki haft nægilega trausta lagastoð.

Niðurstaða umboðsmanns varpaði ljósi á réttaróvissu sem er til staðar um gjaldtöku almenningsbókasafna. Enda þótt löng hefð sé fyrir því að sveitarfélög og aðrir rekstraraðilar almenningsbókasafna innheimti gjöld, er ekki að finna í gildandi lögum nein ákvæði þar að lútandi.


Framkomnu frumvarpi er ætlað að eyða þessari óvissu með tillögum um að lögfest verði ákvæði um að almenningsbókasöfn megi innheimta gjald fyrir þjónustu sína, álag vegna afnota fram yfir skilafrest og bætur vegna efnis sem skemmist eða glatast í meðferð notenda. Tillögurnar hafa verið undirbúnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem styður breytinguna, enda er óvissa af þessu tagi mjög bagaleg fyrir bókasöfnin sem þurfa að tryggja fjárhagslega afkomu sína.

Frumvarpið og greinargerð með því eru aðgengileg á vef Alþingis.