01. mar. 2011

Átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur

  • Ungt-folk
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur næsta sumar með líkum hætti og gera var sl. sumar. Áætlað er að verja allt að 370 milljónum króna til verkefnisins. Vinnumálastofnun mun stýra átakinu sem efnt er til í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög.

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur samþykkt að verja allt að 250 milljónum króna til verkefnisins og ríkisstjórnin að veita 116 milljóna króna mótframlag úr ríkissjóði. Veittir verða styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nema að hámarki fjárhæð atvinnuleysisbóta fyrir hvern einstakling en mótframlagi ríkisins er ætlað að mæta viðbótarkostnaði opinberra stofnana svo að þeim sé unnt að greiða laun samkvæmt kjarasamningum.  Viðbótarkostnaði sveitarfélaganna verða þau að mæta sjálf.

Af framlagi ríkisins eru 10 milljónir króna ætlaðar til verkefna sem hljóta styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og eru á vegum ráðuneyta eða opinberra stofnana. Mennta- og menningarmálaráðuneytið annast umsýslu og kynningu vegna þessara verkefna.

Vinnumálastofnun hvetur nú stofnanir ríkisins og sveitarfélög til að hefja undirbúning þessa átaks og móta störf og verkefni sem fallið geta að því. Vonir standa til að með átakinu verði til 850 – 900 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn og atvinnuleitendur.  Stefnt er að því að ljúka undirbúningi átaksins tímanlega í vor þannig að unnt verði að auglýsa störfin í byrjun apríl svo að í seinni hluta apríl liggi fyrir fjöldi starfa hjá hverjum umsóknaraðila og að þeir geti þá gengið frá ráðningum.  Störfin verða auglýst á heimasíðu Vinnumálastofnunar og etv. víðar og geta námsmenn og atvinnuleitendur sem eru á skrá hjá stofnuninni sótt um með rafrænum hætti líkt og í fyrra.