19. jan. 2011

Umsögn um frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs

  • SIS_Umhverfis_taeknimal_760x640

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent umhverfisnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs. Sambandið leggst í umsögninni gegn því að frumvarpið verði samþykkt án verulegra breytinga.

Einkum leggst sambandið gegn því flókna regluverki og skrifræði sem lagt er til í 6. gr. og ákvæðum til bráðabirgða I og III, sem fjalla um skilakerfi fyrir drykkjarvöruumbúðir og gildistöku þeirra breytinga. Með frumvarpinu er stefnt að því að lög nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur falli úr gildi og að framleiðendum verði frjálst að stofna ný skilakerfi, eitt eða fleiri. Einkaleyfi Endurvinnslunnar verður þar með aflagt. Í stað svo víðtækra breytinga telur sambandið ástæðu til þess að sníða ýmsa agnúa af núverandi fyrirkomulagi, sem hefur m.a. verið gagnrýnt fyrir að mismuna einstökum tegundum drykkjarvöruumbúða. Sambandið vekur einnig sérstaka athygli umhverfisnefndar á því að Endurvinnslan hf. hefur allvíða gert samninga við sveitarfélög og verndaða vinnustaði fyrir fatlaða um að veita fötluðu fólki atvinnu við móttöku og flokkun skilaskyldra drykkjarvöruumbúða. Þessi starfsemi er sett í mikið uppnám ef frumvarpið verður að lögum enda er engin trygging fyrir því að nýju skilakerfin muni viðhalda slíkum samningum. Þá andmælir sambandið því harðlega að ekki virðist gert ráð fyrir því að skilakerfi þurfi að greiða viðkomandi sveitarfélögum fyrir aðstöðu á söfnunarstað. Hlýtur sú spurning einnig að vakna hvort löggjafinn sjái ekki fyrir sér nein tormerki á því að bæta sífellt við lögin nýjum skyldum á sveitarfélögin til þess að útvega slíka aðstöðu. Er bent á að af skipulagsástæðum er landrými söfnunarstöðva í flestum tilvikum mjög takmarkað.

Sambandið leggst jafnframt gegn ákvæðum 11.-19. gr. frumvarpsins, sem fjalla um skilakerfi fyrir raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frá upphafi bent á að mun hagkvæmara væri að fela Úrvinnslusjóði alla ábyrgð á meðhöndlun raftækjaúrgangs heldur en að starfrækja hér á landi sérstök skilakerfi fyrir raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Hvað varðar starfsemi þeirra kerfa sem nú starfa hefur sambandið gagnrýnt að verulega vantar enn á að skilakerfi þjónusti allt landið og ennfremur að gjaldskrá sem umhverfisráðherra setti skv. 21. gr. laganna er alltof lág. Umhverfisráðuneytið hefur til þessa daufheyrst við óskum frá sambandinu, RR-skilum og Samtökum iðnaðarins um lagabreytingar í þeim tilgangi að fela Úrvinnslusjóði ábyrgð á þessari starfsemi. Þess í stað er lagt til í frumvarpinu að ýmsir plástrar verði settir á núverandi fyrirkomulag.

Þá gerir sambandið athugasemdir við nokkur önnur ákvæði frumvarpsins, m.a. um breytingar á skipan stjórnar Úrvinnslusjóðs, verkaskiptingu heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar hvað varðar veitingu starfsleyfa og ákvæði um söfnun rafhlaða og rafgeyma. Þá leggur sambandið áherslu á að skýrslugjöf og upplýsingasöfnun um magn úrgangs verði bætt verulega.

Loks gagnrýnir sambandið að kostnaðaráhrif frumvarpsins hafa ekki verið metin gagnvart sveitarfélögunum og er í umsögninni óskað eftir því að umhverfisnefnd sjái til þess að úr því verði bætt.

Umsögn sambandsins í heild.