Um áramótin sameinast 109 norsk sveitarfélög í 43 ný sveitarfélög. Þessar sameiningar eru síðasta skrefið í umfangsmiklu norsku sameiningarátaki sem norska ríkisstjórnin hleypti af stað árið 2014. Byggt var á frjálsum sameiningum með fjárhagslegum hvata.
Um áramótin sameinast 109 norsk sveitarfélög í 43 ný sveitarfélög. Þessar sameiningar eru síðasta skrefið í umfangsmiklu norsku sameiningarátaki sem norska ríkisstjórnin hleypti af stað árið 2014. Byggt var á frjálsum sameiningum með fjárhagslegum hvata. Eru þetta stærstu sveitarfélagabreytingarnar í Noregi í 50 ár.
Norsk sveitarfélög voru 428 árið 2015 en verða 356 árið 2020. Þrátt fyrir þetta verða um 1/3 hluti norskra sveitarfélaga með færri en 3000 íbúa 2020. Gjáin á milli stórra og lítilla sveitarfélaga mun stækka. Ekki bara hvað varðar fjölda íbúa, heldur líka aldurssamsetningu þar sem íbúar eru hlutfallslega eldri í litlu sveitarfélögunum.
Sveitarfélögin mikilvægustu stoðir velferðarsamfélagsins
Eftir seinna stríð var ákveðið að fela sveitarfélögum aðalhlutverkið í veitingu velferðarþjónustu í Noregi og nefndin sem mótaði tillögurnar taldi að sveitarfélög þyrftu að hafa a.m.k. 3000 íbúa til að leysa verkefni sín. Síðan hafa mörg ný velferðarverkefni bæst við og ýmsum finnst að árangur sameiningarátaksins sé ófullnægjandi eins og fram kemur í leiðara í vefriti norska sveitarfélagasambandsins frá því 19. desember sl.
Höfundur leiðarans telur að til þess að sveitarfélögin geti haldið áfram að vera mikilvægustu stoðir velferðarsamfélagsins og veita faglega sterka þjónustu, þá þurfi þau að verða stærri og sterkari. Ef þjónustan fullnægi ekki kröfum muni ríkið grípa inn í á kostnað hins staðbundna lýðræðis. Samstarf sveitarfélaga geti leyst einhverjar þjónustuáskoranir en veikir hið staðbundna lýðræði og er að skjön við markmið um sjálfbær sveitarfélög sem geti sjálf staðið undir verkefnum sínum. Minni olíupeningar, öldrun íbúa og flutningur íbúa frá landsbyggðarsveitarfélögum muni skapa miklar áskoranir fyrir norsk sveitarfélög á næstu tíu árum.