Norræn sveitarfélög gegna lykilhlutverki í innleiðingu Heimsmarkmiðanna

Nordregio hefur gefið út skýrslu þar sem farið er yfir innleiðingu norrænna sveitarfélaga á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur meðal annars fram að sveitarfélög gegna lykilhlutverki eigi markmiðin að ná fram að ganga.

Í því ljósi sé mikilvægt að norrænu ríkin styðji við bakið á sveitarfélögum þegar kemur að því að innleiða heimsmarkmiðin. Í þessu tilliti er ekki einungis átt við fjárhagslegan stuðning. Hér er einnig átt við að öll stefnumótun og áætlanir ríkjanna taki mið af heimsmarkmiðunum og að mikilvægi og hlutverk sveitarfélaga sé sérstaklega dregið fram.

Þá er bent á að töluvert skorti á kynningu á heimsmarkmiðunum, hvernig sé best að vinna með þau og aðstoð við að mæla árangurinn af innleiðingu markmiðanna. Eins er ljóst að norrænu ríkin fara mismunandi leiðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna, en sumar áskoranirnar eru svipaðar og má þar t.d. nefna þörfina fyrir mælikvarða sem gagnast sveitarfélögum í þessari vinnu.

Skýrslan var unnin að beiðni norska sveitarfélagasambandsins og er henni ætlað að þjóna sem leiðsögn fyrir norsk sveitarfélög.

Skýrsluna er að finna á vef Nordregio.