Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands efnir til námsstefnu um uppbyggingu ferðamannastaða þriðjudaginn 20. apríl kl. 10:00-15:00. Námstefnunni er ætlað m.a. þeim sem koma að skipulagi hönnun, framkvæmdum og umsjón ferðamannastaða, sem og starfsmönnum sveitarfélaga.
Á námsstefnunni verður fjallað um þá skipulags- og undirbúningsvinnu sem þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast, meðal annars skráningar fornleifa og menningarminja, leyfisveitingar, öryggismál og fjármögnun verkefna. Einnig verður fjallað skipulags- og hönnunarferli frá hugmynd til veruleika með það fyrir augum að innviðauppbygging byggist á fagmennsku og vönduðum undirbúningi svo hún hafi ekki í för með sér röskun á náttúru og menningarminjum.
Að námskeiði loknu eiga þátttakendur að hafa öðlast yfirsýn og skilning á ólíkum þáttum skipulags- og hönnunarvinnu sem er undanfari framkvæmda á áfangastöðum.
Fyrirlesarar eru:
- Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir verkefnastjóri Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða hjá Ferðamálastofu,
- Gunnar Óli Guðnason landslagsarkitekt,
- Hrólfur Karl Cela arkitekt og meðeigandi Basalts,
- Hörður Lárusson eigandi Kolofon,
- Sigbjörn Kjartansson arkitekt hjá Gláma-Kím,
- Sólrún Inga Traustadóttir fornleifafræðingur hjá Minjastofnun,
- Uggi Ævarsson minjavörður hjá Minjastofnun og
- Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landsverk.
Námsstefnustjóri er Anna María Bogadottir arkitekt
Námskeiðið er haldið hjá LBHÍ á Keldnaholti, Árleyni 22 Reykjavík, en boðið verður upp á streymi fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni eða eiga ekki heimangengt þennan dag og verður tengill sendur á þátttakendur deginum áður.
Verð: 29.000 kr.