Námskeið um loftslagsmál: Verkefni, tækifæri og skyldur sveitarfélaga, ríkisstofnana og fyrirtækja í opinberri eigu

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands efnir til námskeiðs um loftslagsmál: Verkefni, tækifæri og skyldur sveitarfélaga, ríkisstofnana og fyrirtækja í opinberri eigu þriðjudaginn 8. febrúar nk.

Námskeiðið verður haldið þriðjudaginn 8. febrúar 2022, kl. 9:00-12:00, einungis í fjarnámi. Fjarnámið er sent út í beinu streymi og einnig verður upptaka af námskeiðinu aðgengileg fyrir þátttakendur eftir að því lýkur.
Umsjónarmaður og fyrirlesari er Stefán Gíslason umhverfisráðgjafi hjá UMÍS ehf. Environice.

Þátttökugjald er kr. 19.500-

Smelltu hér til að skrá þig

Um námskeiðið:
Í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 með síðari breytingum, segir m.a. í 5. gr. c: „Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélög skulu setja sér loftslagsstefnu. Stefnan skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð.“

Á námskeiðinu verður fjallað um loftslagsstefnu opinberra aðila og fyrirtækja, leiðir til að mæta þessum kröfum, um eðli loftslagsvandans og um ýmis tækifæri sem til staðar eru til að gera enn betur á þessu sviði en kveðið er á um í lögum.

Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur öðlist yfirsýn og skilning á þeim skyldum sem sveitarfélögum, Stjórnarráði Íslands, stofnunum ríkisins og fyrirtækjum í opinberri eigu bera lögum samkvæmt á sviði loftslagsmála. Fjallað verður um kröfur laganna, hvernig hægt sé að uppfylla þær og móta stefnu í þeim efnum. Enn fremur verður fjallað um eðli loftslagsáskorana og um tækifæri til að ná meiri árangri en lög kveða á um.