Mörg sveitarfélög illa stödd vegna stöðu ferðaþjónustunnar

Byggðastofnun hefur sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra minnisblað um áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástand á landsbyggðinni. Í henni er mikilvægi ferðaþjónustunnar greint eftir svæðum og sveitarfélögum.

Að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur Byggðastofnun tekið saman minnisblað um áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu á fjárhag sveitarfélaga.

Í samantektinni er greint hvar höggið af ferðaþjónustunni verður þyngst. Settar eru upp þrjár sviðsmyndir um þróun atvinnuleysis. Bjartsýn sviðsmynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi næstu tólf mánuði verði 30% minna en áætlað er að það verði í maí 2020, miðmynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði óbreytt næstu tólf mánuði og loks svartsýn mynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist og verði 30% meira næstu tólf mánuði. Einnig var áætlaður samdráttur atvinnutekna eftir helstu greinum ferðaþjónustu, miðað við atvinnutekjur á árinu 2019.

Reiknuð var möguleg lækkun á útsvarsstofni einstakra sveitarfélaga m.v. mismunandi sviðsmyndir. Á grundvelli útreikninga sinna telur Byggðastofnun að níu sveitarfélög geti orðið fyrir hvað þyngstu höggi vegna hruns ferðaþjónustunnar. Sveitarfélögin eru: Bláskógabyggð, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður á Suðurlandi, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar á á Suðurnesjum og Skútustaðahreppur á Norðurlandi eystra.

Fleiri sveitarfélög verða fyrir verulegum búsifjum vegna ástandsins en yfirlit um áætlaðan samdrátt útsvarsstofns allra sveitarfélaga er að finna í viðaukum í minnisblaði Byggðastofnunar.

Þá hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskað eftir því við Byggðastofnun að sambærileg greining verði unnin fyrir höfuðborgarsvæðið og er sú vinna hafin.