Möguleikar sveitarfélaga til að halda rafræna fundi

Í ljósi fjölgunar covid-smita um allt land hafa sveitarstjórnir verið að skoða möguleika til þess að taka upp rafræna sveitarstjórnarfundi að nýju.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur því óskað eftir því við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að nýtt ákvæði 131. gr. sveitarstjórnarlaga sé virkjað en það heimilar ráðherra að víkja frá tilteknum skilyrðum sveitarstjórnarlaga til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og til að auðvelda ákvörðunartöku vegna neyðarástands. Hefur því ráðherra möguleika á að veita sambærilegar undanþágur til sveitarfélaga til að halda rafræna fundi líkt og heimilt var í fyrri covid bylgjum. Vonir standa til að ráðherra taki jákvætt í þá ósk.

Vakin er athygli á því að í vor voru samþykktar breytingar á sveitarstjórnarlögum sem gefa sveitarfélögum tækifæri til að setja í samþykktir um stjórn sveitarfélags víðtækari heimild til rafrænna funda en tíðkaðist áður. Við hvetjum því sveitarfélög til að hefja endurskoðun samþykkta ef ætlunin er að nýta sér rafræna fundi til framtíðar. Í þeirri endurskoðunarvinnu er gott að kynna sér nýja fyrirmynd sveitarstjórnarráðuneytisins að samþykktum um stjórn sveitarfélags sem og nýjar leiðbeiningar um fjarfundi.