Í Samráðsgátt er að finna mál þar sem Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar tillögur starfshóps ráðherra um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu – skráning tímabundins aðseturs í atvinnuhúsnæði
Starfshópurinn var skipaður til þess að fylgja eftir tillögum 6, 9, 11 og 12 úr skýrslu samráðsvettvangs í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg 1. Skýrsla samráðsvettvangs um úrbætur er birt í heild í Samráðsgáttinni ásamt drögum starfshópsins um útfærslu á tillögum 6 og 11, sem óskað er umsagnar um. Umsagnarfrestur er 14.04.2023–28.04.2023.
Sambandið vekur sérstaka athygli á tillögu 11 sem fjallar um mögulegar lagabreytingar vegna óleyfisbúsetu og hefur starfshópurinn verið að skoða hvort lögfesta beri heimildir fyrir einstaklinga til þess að skrá sig með tímabundið aðsetur í atvinnuhúsnæði. Tilgangur slíkra lagabreytinga væri einkum sá að bæta öryggi íbúa m.t.t. brunavarna þar sem unnt væri með þessu fyrirkomulagi að skrá raunbúsetu einstaklinga. Ekki er um að ræða skráningu lögheimilis í atvinnuhúsnæði heldur er um að ræða tímabundna skráningu aðseturs, líkt og nú þegar er heimilt í ákveðnum tilvikum skv. ákvæðum núgildandi laga. Engu að síður er lagt til að hlutaðeigandi einstaklingur skrái lögheimili sitt í það sama sveitarfélag sem það hyggst skrá tímabundið aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði.
Þá má einnig nefna að í starfshópi er lögð áhersla á að það sé skráning lögheimilis sem skapi grundvöll fyrir réttindi og skyldur íbúa í viðkomandi sveitarfélagi og bent á að engin réttindi fylgi aðsetursskráningu sem slíkri í atvinnuhúsnæði, heldur sé megintilgangurinn að tryggja rétta skráningu og öryggi fólks.