Persónuvernd hefur vakið athygli á misskilningi, sem gætt hefur í innleiðingu leik- og grunnskóla á nýjum persónuverndarlögum, í ábendingu sem stofnunin hefur sent frá sér. Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar frumkvæði Persónuverndar í málinu. Um mikilvægar leiðbeiningar til skóla og sveitarfélaga sé að ræða, en lítill sem enginn aðlögunartími hafi verið gefinn vegna gildistöku löggjafarinnar.
Persónuvernd hefur vakið athygli á misskilningi, sem gætt hefur í innleiðingu leik- og grunnskóla á nýjum persónuverndarlögum, í ábendingu sem stofnunin hefur sent frá sér. Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar frumkvæði Persónuverndar í málinu. Um mikilvægar leiðbeiningar til skóla og sveitarfélaga sé að ræða, en lítill sem enginn aðlögunartími hafi verið gefinn vegna gildistöku löggjafarinnar.
Í ábendingu Persónuverndar segir að stofnunin vilji af gefnu tilefni vekja athygli á því, að henni hafi borist fjöldi ábendinga frá bæði foreldrum barna og starfsmönnum um breytta starfshætti í skólum vegna nýrra persónuverndarlaga. Svo virðist sem misskilnings gæti víða í skólasamfélaginu um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til þess að skólastarf sé í samræmi við ný persónuverndarlög.
Að sögn Bryndísar Gunnlaugsdóttur, lögfræðings hjá sambandinu, er full ástæða til að efla leiðbeiningarstarf Persónuverndar, ekki hvað síst í ljósi þess, að afar skammur aðlögunartími hafi verið gefinn vegna gildistöku laganna.
„Í ábendingunni endurspeglast á margan hátt, að undirbúningur vegna innleiðingar persónuverndarreglugerðar ESB var á allan hátt ófullnægjandi. Frumvarpið kom mjög seint fram og tóku lögin gildi aðeins mánuði eftir að þau voru samþykkt. Svigrúm til fræðslu og leiðbeininga var því lítið sem ekkert, þrátt fyrir ítrekaðar óskir sveitarfélaga um eðlilegan aðlögunartíma,“ segir Bryndís.
Við slíkar aðstæður aukast enn fremur líkur á misskilningi og mistúlkun lagaákvæða og á það enn frekar við þegar lögfest eru ákvæði um þung viðurlög við brotum á löggjöfinni. Segir Bryndís að sambandið hvetji því Persónuvernd til áframhaldandi útgáfu á ábendingum vegna þeirra spurninga sem henni berast. Mörgum spurningum sé enn ósvarað varðandi innleiðingu löggjafarinnar.
Í ábendingu Persónuverndar kemur m.a. fram, að skólar virðist hafa tilhneigingu til þess að ganga lengra en gildissvið laganna gefur tilefni til, s.s. í aðgangsstýringum að kennslustofum, trúnaðaryfirlýsingum sem foreldrar hafa verið beðnir um að undirrita, afhendingu bekkjarlista og myndatökum af almennum viðburðum á vegum skóla.
Persónuvernd telur, sem dæmi, að miðlun upplýsinga til foreldrafélaga í þeim tilgangi að tryggja að þau geti rækt lögbundið hlutverk sitt, fari ekki í bága við persónuverndarlög sé meðalhófs gætt og ekki afhentar ítarlegri upplýsingar en nauðsynlegt er.
Þá áréttar stofnunin að persónuvernd sé grundvallarréttur barna og ítrekar mikilvægi þess að viðfangsefnið sé nálgast með það í huga, að ríkari kröfur séu gerðar til vinnslu persónuupplýsinga barna til að tryggja réttindi þeirra - fremur en að áherslan sé á skyldur ábyrgðaraðila í þessum efnum.
- Ábending frá Persónuvernd vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga
- Ítarefni - Ábending Persónuverndar til hagsmunaaðila vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga.