Minnkandi rekstrarafgangur stærstu sveitarfélaganna

Rekstrarafgangur fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins dróst umtalsvert saman fyrstu sex mánuði ársins miðað við sama tímabil árið 2018.

Rekstrarafgangur fjögurra stærstu sveitarfélaga landsins dróst umtalsvert saman fyrstu sex mánuði ársins miðað við sama tímabil árið 2018. Þetta kom fram í máli Sigurðar Á Snævarr sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Í árshlutareikningum Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrar kemur fram að rekstrarafgangurinn fór ú r 4,6% af tekjum árið 2018 í 0,9% af tekjum á fyrri hluta árs 2019. Þá sýnir sjóðsstreymi að dregið hefur úr fjárfestingum sveitarfélaganna úr 12% af tekjum fyrstu sex mánuði 2018 í 10% á fyrri helmingi ársins 2019.

Í máli Sigurðar kom fram að frá febrúar til ágúst á þessu ári hækkað hlutur útsvars í staðgreiðslu um 6,2% á landinu í heild miðað við sömu mánuði í fyrra. Talsverður munur var á milli einstakra landshluta eða frá 4,8% hækkun á Norðurlandi eystra í 7,7% á Norðurlandi vestra. Hann benti á að staðbundnir þættir skiptu greinilega miklu máli í þessu sambandi og að meiri breytileiki væri á milli sveitarfélaga innan sama landshluta en milli landshluta. Þannig nefndi hann sem dæmi að ef höfuðborgarsvæðið væri skoðað án Reykjavíkur væri hækkun útsvars 7% í heildina, 3,7% á Seltjarnarnesi og 11% í Mosfellsbæ. Innan Vesturlands mætti einnig sjá dæmi um 13,4% hækkun í Snæfellsbæ en 3% hækkun í Dalabyggð.

Í erindi sínu benti Sigurður jafnframt á athyglisverða þróun tekna sveitarfélaganna og vergrar landsframleiðslu á undanförnum árum. Þegar tekjur sveitarfélaganna hafa verið færðar til fasts verðlags miðað við verðvísitölu samneyslu kemur í ljós að tekjur sveitarfélaganna héldu ekki í við þróun landsframleiðslunnar og munar þar röskum átta prósentum sem rekja má til áhrifa hrunsins. Án aukinna tekna frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá 2011 vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks er þessi munur tæplega 14% en hafa ber í huga að þessum auknu tekjum fylgdu á sínum tíma auknar skyldur sveitarfélaganna.

Sigurður sagði spár banka og alþjóðastofnana undanfarna mánuði á einu máli um að árið 2019 verði skárra en á horfðist en að næsta ár gæti orðið ívið eða jafnvel mun lakara en fyrri spár hafa gert ráð fyrir. Hann sagði að í uppsveiflu síðustu ára hefðu tekjur sveitarfélaganna iðulega reynst hærri en vænst var sem skapaði ákveðnar væntingar um meiri tekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði en áætlanir gerðu ráð fyrir. Slíkar væntingar gætu leitt til freistnivanda og jafnvel nokkurrar lausungar í fjármálum. Nú virtist hins vegar nýtt upp á teningnum því útlit væri fyrir minni hækkun tekna en spáð var.