Fámenn sveitarfélög, með þúsund íbúa og færri, greiða meira fyrir hirðu úrgangs en þau stærri og fjölmennari. Árið 2020 greiddu þau að meðaltali um 56 þúsund krónur á ári fyrir hvern íbúa á verðlagi 2021 á meðan þau stærri, með tíu þúsund íbúa og fleiri, greiddu að meðaltali um 16 þúsund krónur á ári fyrir hvern íbúa.
Þetta eru niðurstöður á rannsókn sem Guðmundur Kristján Óskarsson, dósent við Háskólann á Akureyri, vinnur að um úrgangsmál á Íslandi. Umfangsmiklar lagabreytingar í úrgangsmálum taka gildi um næstu áramót og gera má ráð fyrir því að þessi kostnaður eigi eftir að hækka í kjölfarið. Þó munu breytingar á framlengdri framleiðendaábyrgð og starfsemi Úrvinnslusjóðs, sem einnig eru í nýju lögunum, koma að hluta upp á móti þessum aukna kostnaði.
Borgað þegar hent er aðferð við innheimtu, sem sveitarfélögum er gert að innleiða í lok næsta árs, er mikilvægt skref í innleiðingu hringrásarhagkerfis. Þetta kerfi, sem er byggt á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir þann úrgang sem hann lætur frá sér getur leitt til hagræðingar, dregið úr magni úrgangs og bætt alla upplýsingagjöf.
Breytingarnar sem fylgja lögunum eru miklar og mikilvægt skref í vegferðinni að hringrásarhagkerfi. Samband íslenskra sveitafélaga kannaði stöðuna með könnun í samstarfi við KPMG til að fá skýrari mynd á hve tilbúin sveitafélögin eru til breytinganna. Niðurstöður könnunarinnar sýna að mörg sveitarfélög verða enn að vinna að markmiðum laganna um áramót en að mikill vilji er fyrir hendi að samræma flokkun og vinna saman að markmiðunum.
Rannsókn Guðmundar leiðir enn fremur í ljós að töluverður skortur er á gögnum og mikið ósamræmi er í upplýsingum þegar kemur að meðhöndlun og annarri ráðstöfun úrgangs á Íslandi.
Fjallað verður um þetta og fleira er varðar úrgangsmál og innleiðingu hringrásarhagkerfis á ráðstefnu Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, næstkomandi föstudag, 7. október, kl. 10:00-15:30, á Grand Hótel í Reykjavík.
Guðmundur er tilbúinn að ræða þessi mál frekar ef eftir því er óskað.
- Guðmundur Kristján Óskarsson, dósent – 8491533
Sömuleiðis ræðir Samband íslenskra sveitarfélaga könnunina frekar sé þess óskað
- Þorgerður María Þorbjarnardóttir, sérfræðingur í umhverfismálum – 8958894