Miklar áskoranir fram undan í rekstri sveitarfélaga

Framsögumenn á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem hófst í morgun, beindu sjónum sérstaklega að áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 á fjárhag sveitarfélaga og þeim áskorunum sem blasa við.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélag. Ljósm.: Karen Helenudóttir.

Í ræðum þeirra Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra sambandsins, og Sigurðar Á. Snævarrs, sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs sambandsins, var sterkur samhljómur um að þótt svartsýnustu spár um þróun fjármála sveitarfélaga á árinu 2020 vegna Covid hafi ekki ræst vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar og Alþingis í efnahagsmálum, væru blikur á lofti.

Takmörk fyrir því hvað launakostnaður getur vaxið

„Á árinu 2021 benda líkur til að fjárhagsstaða sveitarfélaga versni frá fyrra ári, meðal annars vegna aukinna launaútgjalda sem virðast vera langt umfram tekjuaukningu vegna útsvars,“ sagði Aldís í ræðu sinni. Hún benti á að í  árslok  renni út kjarasamningar við fimm stéttarfélög innan Kennarasambands Íslands og við fjögur stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna. 

„Það eru takmörk fyrir því hvað launakostnaður getur vaxið án þess að stórslys verði. Það verðum við öll að hafa í huga í komandi kjaraviðræðum“ sagði Aldís og sagðist ekki þreytast á að minna á að hið opinbera ætti ekki að leiða launaþróun í landinu heldur almennur markaður, sérstaklega gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar.

Ýmislegt sem gefur tilefni til bjartsýni

Þótt verkefnin getu orðið krefjandi er þó ýmislegt sem gefur tilefni til bjartsýni sagði Sigurður Á. Snævarr. Nefndi hann að spár gerðu ráð fyrir um 4% hagvexti í ár og á því næsta. Auk þess sem „vinningurinn í loðnulóttóinu“ gæti aukið hagvöxt næsta árs jafnvel um allt að 2%. Aukinn hagvöxtur myndi tekjustofna sveitarfélaga og auki alla jafnan veltufé frá rekstri. „Þetta eykur bjartsýni um að sveitarfélögin rétti úr kútnum,“ sagði Sigurður.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélag.

Í máli Karls Björnssonar kom fram að það gætti aukins skilnings milli sveitarfélaga og ríkis þegar kæmi að fjármálum. Mikilvæg verkefni sem lúti að hagsmunum sveitarfélaga hafi verið skilgreind. Jákvæðir áfangar hefðu því náðst en betur þyrfti að gera. Meðal annars hefði ríkið tekið á sig 30 ma.kr. lífeyrisskuldbindingahalla, hækkað daggjöld til hjúkrunarheimila, fyrst um 1,5 ma.kr. á ári og síðar um 1,3 ma.kr. og hækkað greiðslur vegna þjónustu við fatlað fólk um 1,5 ma.kr. á ári. Hann sagði síðast nefndu upphæðina þó aðeins brot af því sem þyrfti til. Mjög mikilvægt væri að endurskoða tekjustofna, reglur jöfnunarsjóðs, kostnaðar við öldrunarþjónustu og þróun kostnaðar við þjónustu við fatlað fólk.

Kjarasamningar og lífeyrisskuldbindingar mikil áskorun

Sigurður Ármann Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins.

Sigurður sagði staðreynd að árið 2021 yrði ekki skárra en 2020 þegar horft væri til  fjármála sveitarfélaga. Meðal annars væri áætlað væri að launavísitala sveitarfélaga hækki um 14,1% og um 6,9% á næsta ári. Lífskjarasamningar og vinnutímastytting hefði reynst sveitarfélögum mun dýrari en áætlað var, einkum vegna vaktavinnufólks og eins og Aldís hefði nefnt yrðu kjaramálin mikil áskorun. Þá væru nýjar forsendur um lífaldur væntanlegar í reglugerð sem myndu hafa áhrif á lífeyrisskuldbindingar en einnig á forsendur sem lágu til grundvallar við útreikning á varúðarsjóði Brúar, lífeyrissjóði sveitarfélaga, en sjóðurinn yrði endurmetinn á næsta ári eins og reglur gerðu ráð fyrir.

Að mati Sigurðar er stærsta áskorun sveitarfélaga þó líkast til málefni fatlaðs fólks en niðurstöður rannsókna- og greiningarfyrirtækisins Analytica, á fjárhagslegri sjálfbærni sveitarfélaga, verða kynntar á Fjármálaráðstefnunni á morgun. Hann sagði að meðal þess sem greiningarnar hefðu leitt í ljós væri að „Sveitarfélög sem eru með mikil útgjöld vegna þjónustu við fatlað fólk eru varla fjárhagslega sjálfbær, nema til komi aukið fjármagn frá ríkinu.“

Morgunljóst að verkefnin eru andvana fædd ef ekki fylgir fjármagn

Í ræðum Karls og Aldísar kom skýrt fram að þeim þætti vanta að skilgreina hver bæri ábyrgð af kostnaði sem stefnumarkandi ákvarðanir ríkisins hefðu í för með sér á fjárhag sveitarfélaga.

Aldís fór vítt yfir verkefni sveitarfélaganna, allt frá aðgerðum í húsnæðismálum, aðgerðum í lofslagsmálum, ljósleiðaravæðingu, heilsueflingu aldraðra, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, stafrænar umbreytingar og rekstur hjúkrunarheimila og skóla svo fátt eitt sé nefnt.

Hún sagði sambandið kalla eftir samtali við ríkisvaldið um fjármögnun á verkefnum og ábataskiptum og treysti því að hægt verði að ná góðri niðurstöðu í mikilvægum málum. Fulltrúar sveitarfélaganna þekki samt of vel að taka að sér þjónustu sem ríkið eigi að veita án þess að nægilegir fjármunir fylgi. Hvatti hún sveitarstjórnarmenn til að halda vöku sinni þegar kæmi að kostnaðarþróun í umfangsmiklum verkefnum. Til að mynda hefði Alþingi nýlega samþykkt þingsályktun um menntastefnu til ársins 2030. Í því ljósi væri vert að minnast þess að í ár væru 25 ár liðin frá yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga og sagði hún að draga þyrfti lærdóm af reynslu fyrri ára. Innleiðing breytinga í fræðslumálum kalli á mjög víðtækt samstarf og samráð. Árangur næðist aðeins ef bæði mannafli og fjármagn verða sett í innleiðingu og framkvæmd menntastefnunnar. Sambandið legði því mikla áherslu á fjármögnun við Alþingi og stjórnvöld menntamála því án fjármagns væri ný menntastefna andvana fædd.

Aldís sagði að nákvæmara kostnaðarmat þurfi að fara fram en morgunljóst væri í hennar huga að sú upphæð sem nú er ætluð til þessarar umfangsmiklu breytingu væri engan veginn nægjanleg.