Samkomulag um að vinna sameiginlega greiningu um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila var gert í lok árs 2019 milli Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningaviðræður þessara aðila um daggjöld höfðu staðið yfir um langt skeið án árangurs og steytti þar m.a. á gögnum um rekstur.
Samkomulag um að vinna sameiginlega greiningu um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila var gert í lok árs 2019 milli Sjúkratrygginga Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningaviðræður þessara aðila um daggjöld höfðu staðið yfir um langt skeið án árangurs og steytti þar m.a. á gögnum um rekstur.
Í framhaldinu skipaði heilbrigðisráðherra verkefnastjórn sem í sátu fulltrúar samningsaðila. Samkomulag varð um að skipa prófessor Gylfa Magnússon formann. Verkefnastjórnin fékk KPMG til að afla gagna um rekstur hjúkrunarheimila sem rekin eru fyrir daggjöld árin 2017-2019 og fyrri hluta árs 2020. Um er að ræða 19 heimili sem sveitarfélög reka og 21 sem rekið er í félagaformi.
Skýlaus krafa um hækkun daggjalda
Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi. Samtals nam halli áranna 2017-2019 1.497 milljónum króna. Að frádregnu framlagi sveitarfélaga var hallinn 3.500 milljónir króna. Langflest hjúkrunarheimili voru rekin með halla árið 2019 þegar tekið er tillit til greiðslna frá sveitarfélögum eða 87% þeirra, en 72% þegar horft er framhjá framlagi sveitarfélaga. Það hlutfall hækkar væntanlega þegar tekið er tillit til áhrifa afturvirkni kjarasamninga sem gerðir voru 2020 á kostnað ársins 2019.
Það er skýlaus krafa sambandsins að daggjöld hjúkrunarheimila verði hækkuð strax í samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu og þeirrar kostnaðarhækkunar sem fylgir styttingu vinnutíma vaktavinnufólks þann 1. maí nk. Bendir sambandið á að sveitarfélög eru með samþykktar fjárhagsáætlanir fyrir árið 2021 sem lögum samkvæmt eru bindandi ákvarðanir um allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélaga.
Ekki reyndist unnt að meta afkomu ársins 2020 af nokkrum ástæðum. Gögn náðu einungis til fyrri hluta ársins og endurspegluðu ekki hækkun á launagreiðslum vegna kjarasamninga. Covid-19 hafði veruleg áhrif á rekstur hjúkrunarheimilanna árinu. Ríkið kom til móts við rekstraraðila vegna þessa en þær greiðslur bárust ekki fyrr en 2021 og voru því ekki með í þeim gögnum sem safnað var.
Bráðavandi blasir við
Til viðbótar við undirliggjandi rekstrarvanda sem skýrslan dregur fram taka þann 1. maí nk. gildi ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnutíma vaktavinnufólks. Ljóst er að þetta mun hækka kostnað hjúkrunarheimila verulega og þess krafist að daggjöld hækki strax til að dekka þennan kostnað.
Daggjöld frá ríkinu voru langstærsti tekjuliður hjúkrunarheimila árin 2017 til 2019, eða sem svarar 84% teknanna. Húsnæðisgjald frá ríki svaraði til 6% teknanna og kostnaðarþátttaka íbúa 4%. Framlög sveitarfélaga námu 3% teknanna.
Árið 2019 hefðu tekjur heimila sem rekin voru með halla þurft að hækka um 6,3% til að endar hefðu náðst saman án stuðnings sveitarfélaga. Halli heimilanna árið 2019 þegar tekið er tillit til stuðnings sveitarfélaga og afturvirkra launahækkana var samtals 2,7 ma. kr.
Embætti landlæknis hefur sett fram viðmið um mönnun hjúkrunarheimila þar sem m.a. eru sett fram viðmið um fjölda umönnunarklukkustunda og hlutföll faglærðra og hjúkrunarfræðinga af starfsfólki heimila. Kostnaður hjúkrunarheimila hefði verið um 4.700 milljónir króna hærri árið 2019 að auki ef mönnun hefði verið samkvæmt lágmarksviðmiði Embættis landlæknis, en um 8.600 milljónir króna skv. æskilegu viðmiði embættisins um mönnun.
Verkefnastjórn telur að ekki sé með góðu móti hægt að skipta kostnaði hjúkrunarheimila í félagslega þjónustu annars vegar og heilbrigðisþjónustu hins vegar. Mörg verk sem unnin eru á hjúkrunarheimilum er vart hægt að skilgreina nema sem blöndu af hjúkrun, umönnun og félagsþjónustu. Í þessu sambandi er rétt benda á að samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 ber sveitarfélögum hvorki að sinna stuðningsþjónustu né félagsþjónustu inni á stofnunum, svo sem sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum.
Sveitarfélögin eru að greiða sirka milljarð á ári með þessum rekstri sem þau eiga ekki að gera. Þetta er ekki þeirra lögbundna verkefni.Það þarf að bæta í fjármagnið verulega því ef það er ekki gert, þessi hjúkrunarheimili þau fara bara að reka sig á yfirdrætti og þau eru bara að fara í þrot. Ríkið þarf bara að fara að stíga verulega stór skref. Þetta er málaflokkur sem hefur verið í fjársvelti svo lengi. Það duga engir plástrar í þetta skipti.
Valgerður Freyja Ágústsdóttir fulltrúi sambandsins í verkefnastjórn í viðtali við RÚV 24. apríl sl.