Menntastefna til ársins 2030

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt fyrir þingsályktun um menntastefnu til ársins 2030 og hefur sambandið skilað Alþingi umsögn um málið. Í umsögninni kemur m.a. fram að sambandið telur það vera jákvætt skref að mennta- og menningarmálaráðherra hafi frumkvæði að því að vinna heildstæða menntastefnu fyrir Ísland.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt fyrir þingsályktun um menntastefnu til ársins 2030 og hefur sambandið skilað Alþingi umsögn um málið. Samkvæmt stefnunni byggir framtíðarsýn hennar á einkunnarorðunum framúrskarandi menntun alla ævi og helstu gildi stefnunnar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Menntastefnan byggir á fimm stoðum sem styðja eiga við framtíðarsýn og gildi hennar og eru stoðirnar jöfn tækifæri fyrir alla, kennsla í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi og gæði í forgrunni. Undir hverri stoð eru skilgreindar áherslur sem útskýrðar eru í greinargerð með stefnunni.

Mennta- og menningarmálaráðherra kom á fund fræðslumálanefndar sambandsins 9. desember sl. og gerði þar grein fyrir helstu áherslum sínum ásamt því að svara spurningum nefndarmanna. Var sá fundur upplýsandi og kom skýrt fram af hálfu ráðherra að mikilvægt væri að sveitarfélögin kæmu sem fyrst að mótun fyrstu aðgerðaáætlunar sem gerð verður á grundvelli menntastefnu.

Í umsögn sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi allsherjar- og menntamálanefnd í 10. desember sl. kemur fram að sambandið telur það vera jákvætt skref að mennta- og menningarmálaráðherra hafi frumkvæði að því að vinna heildstæða menntastefnu fyrir Ísland og heilt yfir sé ágætis  samhljómur á milli tillagna í stefnunni og megináherslna er lúta að fræðslumálum í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2018-2022.

Eins og fram kemur í stefnudrögunum er gert ráð fyrir að innleiðingu stefnunnar verði skipt í þrjú tímabil og að við upphaf hvers tímabils verði lögð fram innleiðingaráætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Í umsögn sambandsins er bent á að árangur af stefnumótunarstarfi ráðist  fyrst og fremst af þeim aðgerðum sem ráðist er í til að ná markmiðum stefnunnar. Ljóst sé að fjölmargar aðgerðir muni snerta sveitarfélögin og því mikilvægt að fulltrúar sveitarfélaga hafi aðkomu að undirbúningi þeirra og framkvæmd á öllum stigum. Við þá vinnu sé einnig mikilvægt að forgangsraða verkefnum, kostnaðarmeta og fylgja eftir með markvissum hætti. Þá sé einnig mikilvægt að hafa í huga að aðstæður og áherslur geta verið nokkuð mismunandi eftir sveitarfélögum og landshlutum. Mikilvægt er því að í menntastefnu komi fram hvatning til sveitarfélaga um framþróun skólastarfs út frá mismunandi áskorunum og forsendum.

Það er von sambandsins að sveitarfélögin fái góða aðkomu að útfærslu stefnunnar og að út úr þeirri vinnu komi markviss og fjármögnuð aðgerðaáætlun sem hafi jákvæð áhrif á þróun skólastarfs til framtíðar.