Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og sambandið stóðu nýlega að gerð minnisblaðs um ráðstöfun dýraleifa. Í tengslum við vinnu að svæðisáætlanahluta átaksins Samtaka um hringrásarhagkerfi kom í ljós að kanna þurfti betur umgjörð meðhöndlunar á dýraleifum.
Minnisblaðið er unnið af ráðgjafafyrirtækinu Environice ehf. Í því er leitast við að varpa upp mögulegum sviðsmyndum um hvernig unnt verði að tryggja viðeigandi meðhöndlun dýraleifa, þar sem m.a. er horft til fyrirkomulags á hinum Norðurlöndunum og þeirra innviða sem eru til staðar hér á landi í dag. Verkefnisstjórn sveitarfélaga í úrgangsmálum fjallaði um málið á fundi sínum 6. mars sl.
Megin niðurstöður minnisblaðsins eru að ráðstöfun dýraleifa eru í miklum ólestri á Íslandi. Þar kemur m.a. fram að ,,Þrátt fyrir afdráttarlausar ábendingar í skýrslu nefndar á vegum landbúnaðarráðherra frá árinu 2004 og þrátt fyrir ítrekaðar aðfinnslur Eftirlitsstofnunar EFTA á síðustu 10 árum og dóm EFTA-dómstólsins í framhaldi af því hefur stjórnvöldum mistekist að koma þessum málaflokki í ásættanlegt horf.“
Lagðar eru til fjórar aðgerðir til að koma meðhöndlun dýraleifa í betra horf:
- Byggja upp kerfi fyrir söfnun, flutning og aðra meðhöndlun dýraleifa frá búrekstraraðilum og vinnslustöðvum.
- Haga gjaldtöku þannig að hún fæli aðila ekki frá þátttöku og feli í sér flutningsjöfnun.
- Byggja upp innviði sem afkasta því magni sem til fellur og samræmast áherslum hringrásarhagkerfisins.
- Laga gjaldskrár og móttökuskilyrði urðunarstaða að þessu nýja fyrirkomulagi.
Innleiðing hringrásarhagkerfisins og breytingar söfnun og annarri meðhöndlun úrgangs sem komu til framkvæmda 1. janúar 2023 hafa verið fyrirferðarmikil í starfi sveitarfélaga að undanförnu. Hleypt var af stokkunum átakinu Samtaka um hringrásarhagkerfi sem hefur það að markmiði að aðstoða sveitarfélög við þessar breytingar. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir með fulltrúum sveitarfélaga og ýmsar skýrslur og greiningar um stöðu mála hafa orðið til og eru aðgengilega á vefsíðu sambandsins.