Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA kom saman í Brussel dagana 6.-7. desember 2023. Að þessu sinni voru matarsóun og gæði jarðvegs helstu umfjöllunarefni vettvangsins.
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA fjallaði um endurskoðun á tilskipun Evrópusambandsins (ESB) um meðhöndlun úrgang. Úrgangstilskipun ESB kom fyrst út árið 2008 og þar sem hún fellur undir samninginn um evrópska efnahagsvæðið (EES) er verið að innleiða hana á Íslandi.
Endurskoðunin snýr annars vegar að söfnun og mögulegri endurnýtingu á textíl úrgangi og hins vegar að matarsóun. Hvað textíl varðar er m.a. stefnt að því að auka ábyrgð framleiðenda, t.d. í tengslum við s.k. “fast-fashion“ sem endist oft illa og erfitt er að endurvinna. Þá er gríðarlegu magni af mat hent árlega í Evrópu og samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar – Saman gegn sóun - á það sama við um Ísland. Þar kemur fram að matarsóun á Íslandi jafngildir um 160 kílóum á hvern íbúa á ári.
Í áliti Sveitarstjórnarvettvangsins er bent á að úrgangstilskipun ESB varði sveitarfélög með beinum hætti og því sé nauðsynlegt að samráð sé haft við sveitarfélög á öllum stigum málsins. Þá leggur vettvangurinn til að rík áhersla sé lögð á bæði framleiðendaábyrgð og mengunarbótareglu við gerð og innleiðingu löggjafarinnar.
Þá fjallaði vettvangurinn einnig um nýja jarðvegstilskipun ESB. Fram að þessu hefur löggjöf ESB lagt áherslu á loft- og vatnsgæði í álfunni, en lítið sem ekkert hefur verið fjallað um gæði jarðvegs. Markmið tilskipunarinnar er að allur jarðvegur í Evrópu verði í góðu ástandi eigi síðar en árið 2050.
Í áliti vettvangsins er tekið undir mikilvægi heilbrigðs jarðvegs, en jafnframt lögð áhersla á að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna innan Evrópu og að markmið tilskipunarinnar megi ekki hafa í för með sér óhóflegar fjárhagslegra kvaðir fyrir sveitarfélög.
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA tók til starfa árið 2010 og er hlutverk hans að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA samstarfinu. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss.
Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Rósa Guðbjartsdóttir, fulltrúi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hafnarfjarðar, er búin að vera formaður vettvangsins undanfarið ár, en lætur nú af því embætti þar sem komið er að Noregi að gegna formennsku í vettvanginum.
Fulltrúar Íslands á fundi Sveitarstjórnarvettvangs EES-EFTA 6.-7. desember 2023
- Rósa Guðbjartsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu
- Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
- Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
- Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg
Gögn frá fundinum
- Dagskrá fundarins
- Ályktun – Úrgangstilskipun ESB
- Ályktun – Jarðvegstilskipun ESB