Rannsóknarskyldu gagnvart umhverfismati hafi ekki verið sinnt

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctic Sea Farm undir lok desembermánaðar á síðasta ári vegna 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi. Rök úrskurðarnefndar eru m.a. þau, að Matvælastofnun hafi ekki sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni á því hvort álit Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats framkvæmda myndaði nægilega traustan lagagrundvöll fyrir útgáfu rekstrarleyfisins. Úrskurðurinn virðist hafa leitt af sér verulega óvissu um stöðu fiskeldis.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctic Sea Farm undir lok desembermánaðar á síðasta ári vegna 17.500 tonna ársframleiðslu á laxi. Rök úrskurðarnefndar eru m.a. þau, að Matvælastofnun hafi ekki sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni á því hvort álit Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats framkvæmda myndaði nægilega traustan lagagrundvöll fyrir útgáfu rekstrarleyfisins. Úrskurðurinn virðist hafa leitt af sér verulega óvissu um stöðu fiskeldis.

Rekstrarleyfið heimilar laxeldi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og var veitt í samræmi við lög um fiskeldi og að undangengnu umhverfismati, eins og mælt er fyrir um í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Kærendur eru veiðiréttarhafar, Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi og veiðiréttarhafar.

Ekki viðunandi að meta umhverfisáhrif einungis eins valkosts 

Úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöður að leyfisveitingin sé slíkum annmörkum háð að varði ógildingu rekstrarleyfisins vegna þess, að Matvælastofnun hafi ekki sinnt þeirri lögboðnu skyldu sinni að kanna hvort rétt hafi verið staðið að mati á umhverfisáhrifum laxeldisins. Svo hafi ekki verið, þar eð Skipulagsstofnun hafi ekki gengið á eftir því, að leyfishafar gerðu samanburð á umhverfisáhrifum mismunandi valkosta í framleiðslu á eldislaxi. Segir síðan orðrétt:

Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður á umhverfisáhrifum fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt.

Jafnframt er tekið fram í úrskurðinum að enda þótt einhverjar leiðir geti talist óraunhæfar, þá geti mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. Það sé því afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem leggja megi fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaaðili sinni þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem gætu komið til greina.

Í úrskurði sínum frá því í júní á síðasta ári, vegna sambærilegrar kæru á rekstrarleyfi Háafells  fyrir sjókvíaeldi á innanverðu Ísafjarðardjúpi, víkur nefndin ekki að þessum samanburði á umhverfisáhrifum.

Finna verði viðunandi lausn fyrir alla

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um fiskeldi á Vestfjörðum hefur atvinnugreinin umtalsverða þýðingu fyrir efnahags- og atvinnulíf fjórðungsins, sér í lagi á Tálknafirði og Patreksfirði. Starfsmenn eru um 360 talsins og renna um hver mánaðamót 150 m.kr. í launagreiðslur til þeirra. Þá nema fjárfestingar í greininni á Vestfjörðum 21 milljarði kr. 

Fram hefur komið í fréttum  RÚV, að formaður atvinnuveganefndar Alþingis, Lilja Rafney Magnúsdóttir, vilji kanna hvort fresta megi réttaráhrifum úrskurðarins á meðan leitað sé viðunandi lausna á málinu. Þá hefur verið haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að málið hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn og þar hafi skýr vilji komið fram þess efnis, að áformum á Vestfjörðum verði ekki raskað. Jafnframt kalli úrskurðurinn á það, að farið verði yfir allt umhverfismats- og leyfisveitingaferlið frá grunni.

Hámarkseldi skv. erfðablöndunarmati 50 þúsund tonn

Úrskurðir nefndarinnar í máli Fjarðalax og Arctic Sea Farm eru nr. 135/2018 og nr. 134/2018. Kemur þar m.a. fram undir málsrökum Matvælastofnunar um erfðablöndunarhættu, að hámarkseldi samkvæmt erfðablöndunarmati á Vestfjörðum sé 50.000 tonn, þar af 20.000 tonn í Patreksfirði, Tálknafirði og Patreksfjarðarflóa. Áhættumatslíkan Hafrannsóknastofnunar geri ráð fyrir litlum áhrifum á laxveiðiár landsins að fjórum ám undanskildum. Hafrannsóknarstofnun hafi jafnframt lagt til að banna eldi í Ísafjarðardjúpi sem mótvægisaðgerð við mögulegri erfðablöndun, ásamt vöktun á þessum fjórum ám.

Þá hafnar Matvælastofnun því að kærendum hafi tekist að sýna fram á svo alvarlega annmarka á leyfisveitingunni sem stjórnvaldsákvörðun, að hana megi ógilda. Kemur fram á vef Matvælastofnunar að verið sé að fara yfir forsendur úrskurðarins hjá stofnuninni og hvernig bregðist eigi við honum.