Fjallað verður um skólasókn og skólaforðun á málþingi sem Samband íslenskra sveitarfélaga heldur mánudaginn 20. maí nk. í samstarfi við Velferðarvaktina og Umboðsmann barna. Sjónum verður beint að stöðu þessara vandmeðförnu mála út frá mismunandi sjónarhornum og fjallað um hvaða hlutverki foreldrar, skólar og stjórnvöld gegna sameiginlega og hvert um sig.
Fjallað verður um skólasókn og skólaforðun á málþingi sem Samband íslenskra sveitarfélaga heldur mánudaginn 20. maí nk. í samstarfi við Velferðarvaktina og Umboðsmann barna. Sjónum verður beint að stöðu þessara vandmeðförnu mála út frá mismunandi sjónarhornum og fjallað um hvaða hlutverki foreldrar, skólar og stjórnvöld gegna sameiginlega og hvert um sig.
Að staðaldri forðast um eitt þúsund grunnskólanemar að sækja skóla, að því er rannsókn á vegum Velferðarvaktarinnar hefur leitt í ljós. Þá reyndust skólastjórar hafa áhyggjur af skólasókn nemenda með hliðsjón af leyfisóskum foreldra, svo að fátt eitt sé nefnt úr niðurstöðum þessarar áhugaverðu rannsóknar, sem verða að mörgu leyti í forgrunni málþingsins.
Framsögumenn koma víða að. Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, ríður fyrst á vaðið með umfjöllun um helstu niðurstöður áðurnefndrar rannsóknar, en hún var gerð í janúar og febrúar sl. og kynnt stuttu síðar eða um marsmánuð miðjan. Þá fjallar Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, um niðurstöður rannsóknarinnar frá sjónarhóli skólastjórnenda og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, ræðir um rétt barna til menntunar.
Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, skoðar jafnframt hvort skólaforðun feli í sér hegðun sem horfa megi eftir og Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur hjá Umboðsmanni barna, kortleggur þann lærdóm sem draga má af reynslu helstu nágrannalanda okkar í þessum efnum.
Síðast en ekki síst verður stuttum myndbandsupptökum, þar sem ungt fólk gerir grein fyrir sinni hlið mála, skotið inn á milli framsöguerinda.
Ávörp á málþinginu flytja Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Málþingsstjóri er Grímur Atlason, ráðgjafi á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur og stjórnar hann jafnframt pallborðsumræðum.
Að framsögum loknum taka svo við pallborðsumræður. Þáttakendur eru Jón Pétur Ziemsen, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla, Sigrún Harðardóttir, skólafélags- og námsráðgjafi, Erna Kristín Blöndal, skrifstofustjóri í Félagsmálaráðuneytinu og Sigurrós Á. Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls.
Málþingið fer fram á Grand hóteli í Reykjavík þann 20. maí nk., kl. 08:30-12:00. Aðgangur að málþinginu er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Uppfært 30. apríl