„Málefni flóttamanna eru flókin og núverandi kerfi virkar ekki“

Sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í stefnuræðu sinni á dögunum.

Við sama tækifæri kynnti hún áform ESB um breytingar á innflytjenda- og hælisleitendakerfi Evrópu. Þetta kallar einnig á breytingar á hinni umdeildu Dyflinnar-reglugerð sem Ísland er aðili að.

„Það á enginn eftir að verða ánægður“

Ylva Johansson, framkvæmdastjóri innanríkismála hjá ESB

Fullyrti Ylva Johansson, framkvæmdastjóri innaríkismála hjá ESB. Vandinn er hins vegar sá að núverandi kerfi virkar ekki og því eru ríki ESB reiðubúin að vinna saman að því að finna lausnir sem virka.

Ursula van der Leyen og Ylva Johansson á fundi neyðarstjórnar við upphaf Covid-19 faraldursins í Evrópu 2. mars 2020. (Mynd af vef Politico. Ljósmyndari: JOHN THYS / AFP).

Framkvæmdastjórn ESB kynnti tillögur sínar 27. september síðastliðinn og boltinn er núna hjá Ráðherraráðinu og Evrópuþinginu. Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem sum ríki ESB eru í þegar kemur að málefnum hælisleitenda þá vonast framkvæmdastjórnin til þess að pólitískt samkomulag liggi fyrir eigi síðar en í lok árs.

Umdeild Dyflinnar reglugerð

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB felur í sér þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi að um sé að ræða sameiginlegt kerfi fyrir öll aðildarríki ESB. Í öðru lagi þarf kerfið að vera mun hraðara og skilvirkara. Í þriðja lagi þarf að tryggja að ríki ESB beri jafnari ábyrgð þegar kemur að málsmeðferð í málum hælisleitenda. Þetta kallar á breytingar á Dyflinnar-reglugerðinni, en hún ákvarðar hvaða Schengen ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar. Samkvæmt reglugerðinni er ríkjum heimilað að senda hælisleitenda aftur til þess Schengen-ríkis sem hann kom fyrst til.

Dyflinnar-reglugerðin hefur lengi verið umdeild og hún hefur leitt til ójafnar ábyrgðar og álags meðal ríkja ESB þar sem meginþorri flóttamanna koma til Evrópu í gegnum Grikkland, Ítalíu of Spán. Ísland er hluti af Schengen og Dyflinnar-reglugerðin á við um hælisleitendur hér á landi. Því er ljóst að fyrirhugaðar breytingar á innflytjenda- og hælisleitendakerfi ESB munu að öllum líkindum hafa áhrif á meðferð þessar mála á Íslandi.