05. des. 2017

Stafræna lýðræðisþróunin

Betri bær“ eða Your Priorities hugbúnaðurinn hefur verið tekinn í notkun vítt og breitt um veröldina. Auk Íslands má nefna Ástralíu, Skotland, Eistland, Wales, Noreg og Möltu.

Rætt var nýlega við Róbert Bjarnason og Gunnar Grímsson, stofnendur ábatalausa fyrirtækisins Íbúar SES eða Citizens Foundation á vef breska dagblaðsins Financial Times undir fyrirsögninni „Veröldin fylgist með þróun stafræns lýðræðis í Reykjavík“ eða "The world watches Reykjavik's digital democracy experiment".

Your Priorities er hugbúnaður sem gerir stjórnvöldum kleift, hvort heldur landsstjórn eða sveitarsveitarstjórnum, að hafa samráð við kjósendur um hvað eina, hvort heldur um er að ræða löggjöf, framkvæmdir eða fjárhagsáætlanir, svo að dæmi séu tekin.

Að sögn Róberts og Bjarna var Reykjavíkurborg fyrst til að taka hugbúnaðinn upp. Það var í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2010, þegar Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, hét að hrinda í framkvæmd í hverjum mánuði þeim hugmyndum sem næðu 10 efstu sætunum.

Nú, sjö árum, 20.000 notendum og 769 samþykktum hugmyndum síðar, er hugbúnaðurinn orðinn hluti af alþjóðlegri þróun sem þrýstir á um aukið vægi kjósenda í pólitískri ákvarðanatöku. Sem dæmi, þá gerir MiVote smáforritið fólki kleift að greiða atkvæði um mál sem eru til umræðu í Ástralska þinginu og í Eistlandi hafa verið samþykkt lög sem skylda þingið til að taka til umræðu tillögur sem hljóta 1.000 atkvæði eða fleiri.

Hvað Reykjavíkurborg snertir, þá byggir Betri Reykjavík og Hverfið mitt á hugbúnaðinum frá Íbúum SES, en í ár var rúmum 2 ma.kr. eða 6% af fjárhagsáætlun borgarinnar veitt til þessara lýðræðislegu íbúaverkefna.

Þá er þess einnig getið að sumir skólar í Reykjavík nýti hugbúnaðinn við námsskrárgerð og að fyrir síðustu alþingiskosningar hafi 10 af 11 stjórnmálaflokkum nýtt sér þessa lausn til að skjóta hugmyndum undir dóm þjóðarinnar.