12. sep. 2017

Skiptir kyn máli í bæjarpólitík?

Samband sveitarfélaga og Jafnréttisstofa héldu vel heppnaða málstofu á Fundi fólksins 8. september sl., um kynjaáhrif í bæjarpólitík. Svo skemmtilega vill til að spurningunni var svarað ýmist játandi eða neitandi.

Málþingið hófst á því að Helga Guðrún Jónasdóttir, samskiptastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, renndi yfir tölulegar staðreyndir með hliðsjón af samantekt Tryggva Hallgrímssonar, sérfræðings hjá Jafnréttisstofu. Þá fluttu fjórir núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnarmenn örframsögur um upplifun sína, en það voru:

  • Andrea Hjálmsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri,
  • Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit,
  • Unnur Valborg Hilmarsdólttir, oddviti Húnaþings vestra og
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar.

Að framsögum loknum tóku svo við fyrirspurnir og umræður og að þeim loknum tók Svanfríður Jónasdóttir, fundarstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Dalvík, saman það sem kom helst fram á málþinginu. Lokaorðið átti síðan Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttistofu.

Óhætt er að segja meginniðurstöðu málþingsins þá, að kyn skiptir miklu máli í bæjarpólitík nema þá helst að þátttöku kvenna undanskilinni, en eins og fram kom í tölulegu yfirferðinni þá er aðeins sjónarmunur á kynjunum hvað þátttöku snertir. Karlar hafa þó enn vinninginn bæði hvað fjölda frambjóðenda snertir og fjölda kjörinna fulltrúa. Konur fylgja þeim hins vegar fast eftir og haldi fram sem horfir heyrir sá munur, sem þó er til staðar, senn sögunni til.

Það sama verður á hinn bóginn ekki sagt um áhrifastöður eins og framkvæmdastjóra sveitarfélaga og formenn byggðaráða. Eru konur enn verulegir eftirbátar karla í þeim efnum og ljóst að breytinga er þörf. Einnig var talsverð umræða um að konur virðast síður reiðbúnar að gefa kost á sér til endurkjörs. Við það tapist dýrmæt þekking og reynsla, sem geti svo aftur veikt þær forsendur sem konur hafa til að auka áhrif sín og völd á sveitarstjórnarstiginu.