06. sep. 2017

Samráð við íbúa eykur ánægju og traust

Fjölmennt var á málþingi sambandsins um íbúasamráð sveitarfélaga og þátttöku íbúa sem fram fór á Grand hóteli í Reykjavík í gær. Ný handbók fyrir sveitarfélög er væntanleg, auk þess sem hópur hefur verið settur á fót á Fésbók fyrir umræðu og þekkingarmiðlun á milli sveitarfélaga.

Fjallað var um lykilþætti íbúasamráðs og -þátttöku í þremur málstofum og sveitarfélög vítt og breitt um landið kynntu áhugaverð lýðræðisverkefni.

Tæplega 100 manns sóttu málstofuna sem sýnir vel, að sögn Önnu Guðrúnar Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs, þann áhuga sem ríkir á sveitarstjórnarstiginu.

Málstofan endurspeglaði vel það áhugaverða starf, sem á sér stað um allt land, við að þróa og byggja upp nýjar leiðir innan nærsamfélagsins. Þetta er mikilvægt starf, því rannsóknir sýna að því betur sem staðið er að íbúasamráði og –þátttöku því ánægðari verða íbúar með stjórnun og þjónustu sveitarfélagsins.

En það skiptir máli hvernig staðið er að hlutunum. Það þarf að að ná til allra íbúa, sem hafa hagsmuna að gæta, og fá fólk til að ræða saman á jákvæðan og uppbyggilega hátt. Þannig er hægt að auka skilning á mismunandi sjónarmiðum og forsendum sveitarstjórnar við ákvörðunartöku. Sveitarfélög þurfa að læra réttu aðferðirnar við íbúasamráð. Mörg sveitarfélög eru að gera góða hluti og það er mikilvægt að miðla reynslu þeirra til annarra sveitarfélaga. Það var markmið málþingsins.

Þá var Evrópuvika sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins kynnt.  Þetta er árlegur viðburður sem á 10 ára afmæli í ár. Markmið hans er að fá evrópsk sveitarfélög og svæði til að skipuleggja íbúaþátttökuviðburði í þeirri viku sem sáttmáli Evrópuráðsins um sjálfsstjórn sveitarfélaga, og Ísland á aðild að, öðlaðist gildi.