Samráð skortir við sveitarfélög vegna úrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd

Velferðarráð Reykjanesbæjar telur að fyrirkomulag ríkisins vegna þjónustuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd óásættanlegt. Verulega skortir á samráð við sveitarfélög að mati ráðsins, sem vill að reglur verði settar varðandi umrædd úrræði og aðkomu sveitarfélaga.

Velferðarráð Reykjanesbæjar telur að fyrirkomulag ríkisins vegna þjónustuúrræða fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd óásættanlegt. Verulega skortir á samráð við sveitarfélög að mati ráðsins, sem vill að reglur verði settar varðandi umrædd úrræði og aðkomu sveitarfélaga. Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs og Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, sátu fund velferðarráðs í gær 

Fjallað var á fundi ráðsins um það verklag Útlendingastofnunar, að teknar séu ákvarðanir um þjónustu sveitarfélaga við umsækjendur um alþjóðlega, án þess að sveitarfélög hafi eitthvað um það að segja. Gerir ráðið athugasemd við, að ekki sé tekið tillit til annarra þátta en fjárhagslegs hagkvæmis fyrir ríkið og nálægðar við höfuðborgina, vegna verkefna og hlutverks Útlendingastofnunar.

Í frétt frá Reykjanesbæ um málið kemur m.a. fram, að sveitarfélagið hafi lengi bent á, að framlög ríkisins til uppbyggingar innviða, s.s. vegna heilbrigðisþjónustu og löggæslu, hafi verið verulega ábótavant, ekki hvað síst með hliðsjón af þeirri íbúafjölgun sem átt hefur sér stað á Suðurnesjum. Einnig er bent á, að lögð hafði verið rík áhersla á, að vanda í hvívetna til uppbyggingar í Ásbrú, nýjasta og jafnframt viðkvæmasta hverfi bæjarins.

Á fundi ráðsins kom m.a. fram að sambandið leggi áherslu á að hugað sé að móttökusveitarfélögum og forsendum þeirra til að taka við flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Velferðarráð Reykjanesbæjar mun í framhaldi óska eftir fundi með dómsmálaráðuneytinu um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.