01. des. 2017

Ný persónuverndarlöggjöf væntanleg

Rétturinn til að gleymast, til að fá upplýsingar um sig leiðréttar og vita af vinnslu upplýsinga um sig er á meðal nýmæla sem verða fest í  persónuverndarlög. Nýjar skyldur sveitarfélaga, raunhæf ráð vegna innleiðingar, skýjalausnir og öryggi var á meðal þess sem fjallað var um á persónuverndardegi sveitarfélaga.

Fjölbreytt dagskráin hófst á því, að Telma Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fór yfir það helsta sem sambandið og sveitarfélögin þurfa að gera með hliðsjón af gildistöku nýrrar persónuverndarlöggjafar á næsta ári.

Að því loknu rakti Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri hjá Persónuvernd, efnislega löggjöfina væntanlegu og áhrif hennar á sveitarfélög. Voru mat á persónuvernd (MÁP), persónuverndarfulltrúar, vinnsluskrár, lágmörkun gagna og sektarákvæði á meðal þeirra nýmæla sem Vigdís Eva kynnti til sögunnar.

Hörður Helgi Helgason, lögmaður hjá Landslögum, gaf fundarmönnum jafnframt raunhæf ráð vegna innleiðingar löggjafarinnar, sem leggja má að jöfnu hvað orðafjölda snertir við algenga lengd skáldsagna. Vönduð innleiðing byggir í grunnin á skýrum og til þess að gera aðgengilegum ferlum, sem Hörður Helgi gerði vandlega skil í erindi sínu.

Ragnar Sigurðsson fjallaði, ásamt Árna Þór Árnisyni hjá Awarego, um mannlega þáttinn í gagnaöryggi, en eldveggir og veiruvarnir duga nú skammt. Má aðallega rekja það til þess að fólk veldur í 95% gagnlekum hjá fyrirtækjum og opinberum aðilum.

Einnig greindi Einar Birkir Einarsson, sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu, þá kosti sem skýjaþjónusta hefur fyrir rekstur tölvu- og upplýsingakerfa, ekki hvað síst í einfaldari og hagkvæmari rekstri, en í máli hans kom m.a. fram að lækka má kostnað ríkisins vegna rafrænnar þjónustu um 2 ma.kr. með einfaldara rekstrarumhverfi, aukinni stöðlun og sameiginlegum innkaupum.

Þá veltu Vala Dröfn Hauksdóttir, deildarstjóri tölvudeildar Garðarbæjar og Oddur Hafsteinsson, ráðgjafi og öryggisstjóri TRS, áhættumati fyrir sér, í hverju slíkt mat felst og hvers vegna og hvernig það er gert og Hugrún Ösp Reynisdóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu þjónustu og reksturs hjá Reykjavíkurborg fór í gegnum möppun upplýsingaeigna og mikilvægi ferla.

Fundarstjóri dagsins var Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá sambandinu.

Persónuverndardagurinn fór fram á Grand Hotel fyrir fullum sal fundargesta, en liðlega liðlega 200 manns sótti viðburðinn, auk þess sem um 100 manns skráði sig á fjarfund.