18. feb. 2015

Nýtt um Evrópska jafnréttissáttmálann

  • Jafnrétti

Evrópsku sveitarfélagasamtökin, CEMR, sem stóðu að gerð sáttmálans, halda annað hvert ár ráðstefnur til að ræða það sem er efst á baugi hjá evrópskum sveitarfélögum. Slík ráðstefna var haldin í Róm í desember sl. og þar var ein málstofan helguð jafnréttissáttmálanum[1]. Þar voru ræddar áskoranir sveitarfélaga við að ná fram jafnrétti í raun og hvaða stuðning þau þurfi. Einnig hvernig sveitarfélög og samtök þeirra geta hagnýtt sér sáttmálann, hvaða hindranir séu í veginum og hvaða verkfæri hafa verið þróuð til stuðnings. Meðal framsögumanna var aðstoðarborgarstjóri Bilbao sem er jafnframt forseti Baskneska sveitarfélagasambandsins á Spáni, EUDEL. Þau samtök hafa stutt vel við jafnréttisstarf í baskneskum sveitarfélögum. Framsögumaður frá Brusselborg sagði frá því hvernig borgin vann aðgerðaráætlun skv. jafnréttissáttmálanum. Þar var að nokkru leyti byggt á hugmyndafræði Staðardagskrár 21 og á fyrirliggjandi stefnumótun borgarinnar. Annað land sem er áhugavert að líta til varðandi jafnréttissáttmálann er Luxemborg þar sem stærðarhlutföll eru líkari því sem við þekkjum á Íslandi. Fulltrúi alþjóðasamtaka sveitarfélaga sagði frá jafnréttisstarfi samtakanna í þróunarlöndum. Starfið snýst um að stuðla að aukinni pólitískri þátttöku kvenna, tryggja betur öryggi þeirra og laga opinbera þjónustu betur að þörfum bæði kvenna og karla. Fram kom að tryggja þurfi varanlegar breytingar. Tölulegar upplýsingar sýni að átaksverkefni skili aðeins árangri til skamms tíma. Sameinuðu þjóðirnar þurfi að standa sig betur í jafnréttisaðgerðum. Hún lagði áherslu á að jöfn tækifæri tryggi ekki jafnrétti í reynd.

Í tilefni málstofunnar voru lagðar fram nýjar upplýsingar um stöðu jafnréttissáttmálans. Nú hafa yfir 1450 sveitarfélög undirritað sáttmálann í 32 löndum. CEMR stofnaði svokallað "Observatory" árið 2012, til að veita aðildarsveitarfélögum stuðning. Í janúar 2013 var opnuð vefsíða, www.charter-equality.eu. Þar eru upplýsingar um 40 fyrirmyndarverkefni, m.a. frá þeim borgum og löndum sem minnst er á hér að ofan, og fleiri eru væntanleg. Á síðunni er viðtal við Halldóru Gunnarsdóttur sérfræðing Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum og viðtöl við fulltrúa Gautaborgar, Brussel, Bern og Frankfurt. 75 aðgerðaráætlanir hafa verið settar inn á síðuna, þ. á m. aðgerðaráætlanir Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Akureyrarkaupstaðar.