16. jún. 2014

Nýjar sveitarstjórnir

  • Rett_Blatt_Stort_a_vefinn

Þann 15. júní tóku nýjar sveitarstjórnir við völdum og eru flestar nýkjörnar sveitarstjórnir að koma saman til fyrsta fundar þessa dagana til þess að kjósa sér oddvita, kjósa í nefndir og jafnvel að ganga frá ráðningum framkvæmdastjóra sveitarfélaga.

Í 74 sveitarfélögum sitja 504 sveitarstjórnarmenn. 393 þeirra voru kjörnir bundinni hlutfallskosningu (listakosningu) í 53 sveitarfélögum, 94 voru kjörnir óbundinni kosningu (persónukosningu) í 18 sveitarfélögum og 17 voru sjálfkjörnir í þremur sveitarfélögum.

Kosningaþátttaka í þeim 71 sveitarfélagi þar sem kosning fór fram var 66,5% og er það allra lægsta kosningaþátttaka á 40 ára tímabili frá 1974 þegar kjörsóknin var hæst 87,8%. Við kosningarnar 2010 var kjörsókn 73,5%.

Mest var kjörsókn í Eyja- og Miklaholtshreppi eða 95,2% og minnst í Breiðdalshreppi 56,6%.

Konur í sveitarstjórnum eru nú 222 eða 44%, en þær voru 39,8% sveitarstjórnarmanna eftir kosningarnar 2010.

Elsti sveitarstjórnarmaðurinn er tæplega 69 ára gamall og sá yngsti er tæplega 21 árs og meðalaldur sveitarstjórnarmanna er 46 ár.

Þegar skoðað er hlutfall endurnýjunar í sveitarstjórnum, þ.e. þeir sveitarstjórnarmenn sem ekki hafa setið sem aðalmenn í viðkomandi sveitarstjórn á síðasta kjörtímabili, kemur í ljós að þeir eru 274 eða 54,4%. Rétt er að taka fram að einhver hluti þeirra hefur setið sem varamenn, aðrir hafa flutt sig milli sveitarfélaga eftir að hafa setið annars staðar í sveitarstjórn og enn aðrir setjast að nýju í sveitarstjórn eftir hlé síðasta kjörtímabil eða fleiri. Margir þessara „nýju“ sveitarstjórnarmanna hafa því reynslu af störfum að sveitarstjórnarmálum.

Samband íslenskra sveitarfélaga árnar öllum 504 sveitarstjórnarmönnum heilla og óskar þeim velfarnaðar í mikilvægum störfum að sveitarstjórnarmálum í sinni heimabyggð.

Upplýsingingar um nýjar sveitarstjórnir hafa verið birtar á vef sambandsins á slóðinni http://www.samband.is/sveitarfelogin/.