28. des. 2012

Ný upplýsingalög taka gildi

  • SIS_Lydraedi_mannrettindi_760x640

Ný upplýsingalög voru meðal þingmála sem hlutu afgreiðslu fyrir jólahlé Alþingis. Frumvarpið hafði lengi verið til meðferðar enda fólust í því ýmis nýmæli sem skiptar skoðanir voru um, þótt almennt væri talið að endurskoðun laganna væri tímabær m.a. með tilliti til tækniþróunar.

Sum þessara nýmæla hafa umtalsverða þýðingu fyrir sveitarfélögin og hefur Samband íslenskra sveitarfélaga því fylgst grannt með framgangi málsins. Í umsögnum, sem sambandið sendi Alþingi og forsætisráðuneyti á síðastliðnum þremur árum, hefur ítrekað verið bent á að breytt lög myndu hafa íþyngjandi áhrif á stjórnsýslu sveitarfélaga. Í kostnaðarmati sem framkvæmt var á frumvarpinu var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði nýrra laga myndu útheimta viðbótarvinnu í stjórnsýslu sveitarfélaganna og að um marktæka aukningu væri að ræða. Ekki voru á hinn bóginn forsendur til þess að meta aukninguna í beinum fjárhæðum, m.a. þar sem ekki hafði farið fram útttekt á því hversu mörg sveitarfélög hefðu möguleika á því að vinna úr upplýsingabeiðnum með rafrænum hætti í gegnum málaskrárkerfi.

Brugðist var við athugasemdum sambandsins með því að í gildistökuákvæði laganna er mælt fyrir um að reglur eldri laga haldi gildi sínu til 1. janúar 2016 gagnvart sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 manns við gildistöku laganna. Stærri sveitarfélög munu hins vegar þurfa að afgreiða upplýsingabeiðnir sem berast frá og með áramótum í samræmi við ákvæði nýju laganna. Þá verðum þessum stærri sveitarfélögum einnig skylt að hafa meira frumkvæði að birtingu upplýsinga með rafrænum hætti, m.a. þannig að skrár yfir mál og listar yfir málsgögn verði aðgengilegir á vefnum.

Annað athyglisvert nýmæli er að lögaðilar sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, þ.m.t. sveitarfélaga, munu að öllu jöfnu falla undir gildissvið nýju laganna. Frá þessu eru þó undantekningar sem ná til skráðra hlutafélaga sem veita upplýsingar samkvæmt reglum um upplýsingagjöf á verðbréfamarkaði. Einnig geta fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, sem eru starfsemi að nær öllu leyti í samkeppni á markaði, óskað eftir því að vera undanþegin gildissviði nýju laganna. Forsætisráðherra veitir slíkar undanþágur að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarstjórnar, eða sveitarstjórna sé hlutaðeigandi fyrirtæki í eigu fleiri en eins sveitarfélags.

Ákvæði um þessi fyrirtæki, sem eru að 51% hluta eða meira í eigu sveitarfélags/a taka fyrst gildi um mitt ár 2013 og gefst því ráðrúm til þess að sækja um undanþágur vegna þeirra. Eðlilegt er að sveitarfélög yfirfari lista um B-hluta fyrirtæki sín, og félög þar sem sveitarfélag fer með meira en fjórðungshlut, með það fyrir augum hvort samkeppnissjónarmið og vernd viðskiptahagsmuna kalli á að hin ríka upplýsingaskylda skv. nýjum upplýsingalögum nái ekki til þeirra.