29. nóv. 2012

Frumvarp til laga um heimild til rafrænna íbúakosninga lagt fram á Alþingi

  • Rfraen-samskipti

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið á vegum innanríkisráðuneytisins og í því er lagt til að ráðherra geti heimilað sveitarfélögum, að beiðni þeirra, að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að frumvarpið snerti öll sveitarfélög landsins, enda er markmið þess að þróa tæki eða aðferðir til þess að auðvelda sveitarfélögum að kanna vilja íbúa þeirra til ýmissa mála. Frumvarpið er í samræmi við niðurstöður nefndar sem skipuð var í mars 2011 og hafði það hlutverk að vinna að frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins. Meðal þess sem nefndin fjallaði um voru áherslur á aukið íbúalýðræði og nýjar leiðir í þeim málum og rafræn stjórnsýsla. Níu af 23 tillögum nefndarinnar vörðuðu rafræna stjórnsýslu og lýðræði.

Í athugasemdunum kemur einnig fram að verði frumvarpið að lögum mun það leiða til nokkurs kostnaðar svo sem vegna undirbúnings, innleiðingar og útfærslu tæknilegra atriða en gert er ráð fyrir að kostnaði verði mætt m.a. með fjárveitingum frá ríkinu sem falla undir verkefni á sviði upplýsingasamfélagsins.

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2013.

Frumvarpið á vef Alþingis.