02. okt. 2012

Opnari stjórnsýsla í Hafnarfjarðarkaupstað

  • hafnarfjordur_hreinteiknad

Í ágúst sl. samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðarkaupstaðar reglur um birtingu gagna með fundargerðum og tóku reglurnar gildi í gær. Nú munu fundargerðir bæjarins ekki aðeins innihalda upplýsingar um hvaða mál voru á dagskrá og hvaða afgreiðslu þau hafa hlotið, líkt og lög kveða á um að þær geri, heldur munu þær innihalda greiða leið fyrir bæjarbúa og aðra að þeim upplýsingum sem lagðar eru formlega fram á fundum og skýrt geta ákvarðanir viðkomandi nefnda og ráða í einstökum málum.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri segir reglunum ætlað að tryggja að birting gagna sé byggð á málefnalegum forsendum í samræmi við upplýsingalög, stjórnsýslulög og lög um persónuvernd. Aukið aðgengi að gögnum er stór skerf í átt að aukinni rafrænni stjórnsýslu og með þessari aðgerð erum við að sýna frumkvæðið í upplýsingagjöf til þeirra sem þurfa á upplýsingum að halda.


Birting gagna með fundargerðum er í samræmi við stefnu Hafnarfjarðarkaupstaðar í upplýsingarmálum þar sem áhersla er lögð á að bæjarbúar, starfsmenn, fyrirtæki og fjölmiðlar séu almennt upplýstir um málefni og starfsemi bæjarfélagsins. Einnig að upplýsingar séu aðgengilegar og settar fram með skýrum og einföldum hætti.

Fyrsta ráðið til að birta gögnin var Fræðsluráð en önnur ráð og nefndir munu fylgja í kjölfarið næstu daga.

Hér er hægt að skoða fundargerð Fræðsluráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Hér er hægt að skoða reglurnar.