10. apr. 2012

Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum - leiðbeiningarrit

  • lydraedisrit_forsida

Samband íslenskra sveitarfélaga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands hafa gefið út leiðbeiningaritið Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum fyrir sveitarfélög, samtök og annað áhugafólk um íbúalýðræði. Aukið lýðræði, samráð og upplýsingamiðlun um athafnir stjórnvalda er ein meginkrafna okkar samtíma. Sveitarfélög gegna þar mikilvægu hlutverki og geta stuðlað að þessu með margvíslegum hætti. Þessu riti er ætlað að vera þeim og öðrum til stuðnings í þeirri viðleitni. Ritið var kynnt á landsþingi sambandsins sem haldið var 23. mars sl. Það er aðgengilegt hér og á vef Stofnunar stjórnsýslufræða og er öllum frjálst að nýta ritið og dreifa því. Ritið er sautján sjálfstæðir kaflar eftir nítján höfunda. Þeir fjalla um hagnýta sem fræðilega þætti er varða ýmsar hliðar og aðferðir íbúalýðræðis. Efnisyfirlit og lista yfir höfunda má finna fremst í lýðræðisritinu.

Ritið er afurð rannsóknar á íbúalýðræði í íslenskum sveitarfélögum sem Sambandið og Stofnun stjórnsýslufræða stóðu sameiginlega að. Rannsóknin hófst árið 2008 eftir að miklar deilur höfðu ríkt í sveitarfélögum um ákvarðanir í skipulagsmálum og skyldum málaflokkum. Síðar á þessu ári mun Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, sem stýrði rannsókninni, gefa út bók þar sem gerð verður fræðilega grein fyrir meginniðurstöðum rannsóknarinnar. Ritstjórar ritsins, Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum voru auk Gunnars Helga, Margrét S. Björnsdóttir og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir.