25. apr. 2018

Leyfum börnum að vera börn

Upplýsingatækni- og samfélagsmiðlavæðing síðustu ára heggur í sumum tilvikum nærri þeim rétti sem börn njóta til einkalífs, trúnaðar og sjálfstæðra skoðana. Það gleymist stundum að leyfa börnum að vera börn. Fjallað var um rétt barna í opinberri umfjöllun á morgunverðarfundi Náum áttum, sem var jafnframt síðasti fundur hópsins fyrir sumarhlé.

Á fundinum voru flutt þrjú erindi. Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur hjá Barnaheill, fjallaði um almenn viðmið vegna opinberrar umfjöllunar um börn, hvers vegna slík viðmið væru sett og fyrir hverja. Anna Lilja Þórisdóttir, blaðamaður og aðstoðarfréttaritstjóri ræddi um umfjöllun fjölmiðla um börn og Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, umsjónarmaður krakkafrétta á RÚV talaði um þessa flóknu einföldun sem hún og samstarfsfólk hennar stæðu iðulega frammi fyrir í fréttaskrifum fyrir börn.

Í erindi sínu rakti Þóra Almenn viðmið um opinbera umfjöllun um börn sem eftirtalin félagasamtök og stofnanir tóku höndum saman um og gáfu út; Barnaheill, Heimili og skóli, SAFT, Fjölmiðlanefnd, Umboðsmaður barna og UNICEF. Viðmiðin voru gefin út í tveimur mismunandi útgáfum eða fyrir fjölmiðla annars vegar og samfélagsmiðla hins vegar og má nálgast þau á vefsíðum áðurtaldra stofnana og félaga.

Anna Lilja fjallaði um nálgun fjölmiðla á börnum og verklagsreglur sem þeir geta sett sér um slíka umfjöllun. Einnig kom fram í máli hennar að af þeim ellefu kærum sem siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur borist frá stofnun vegna umfjöllunar um börn hafa sex verið úrskurðaðar sem brot á siðareglum félagsins. Síðasti úrskurðurinn féll árið 2013.

Ísgerður sagði frá tilurð krakkafrétta og þær áskoranir sem umsjónarmenn standa oft frammi fyrir hvað fréttamat og fréttavinnslu varðar. Niðurstaðan varð á endanum sú, að flestar fréttir ættu sama erindi við börn og fullorðna. Það sem aðgreindi krakkafréttir frá öðrum fréttum væri helst að þær snúast ekki um að vera fyrstar með fréttina heldur um útskýringar á daglegum fréttum og aukið fréttalæsi. Einnig benti Ísgerður á að fréttirnar væru fyrir börn frá 8 ára aldri og mælt væri með því að foreldrar hlustuðu með börnum sínum á fréttirnar.

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. Ljósmyndin hér að neðan er úr erindi Ísgerðar.

Opinber-umfjollun-um-born